Transformers 4 fær kínverskan fókus

Paramount kvikmyndafyrirtækið bandaríska segir í tilkynningu að það hafi gert samning við kínversku fyrirtækin China Movie Channel og Jiaflix Enterprises um að fjórða Transformers myndin, Transformers 4, verði að stórum hluta tekin upp í Kína, en Transformers myndirnar hafa notið mikilla vinsælda í landinu.

The China Movie Channel er einskonar RÚV þeirra Kínverja ( e. The State Administration of Radio Film and Television ) og heyrir beint undir kínversk stjórnvöld.

Samkvæmt fréttatilkynningunni þá munu kínversku fyrirtækin tvö hjálpa leikstjóranum Michael Bay að velja tökustaði í Kína, sem og að hjálpa til við markaðssetningu og hugsanlega eftirvinnslu myndanna í Kína. Einnig munu fyrirtækin hjálpa til við að finna kínverska leikara í hlutverk í myndina.

Sem fyrr sagði þá hafa fyrri Transformers myndir verið miklar metsölumyndir í þessu fjölmennasta ríki veraldar. Síðasta mynd, sem frumsýnd var árið 2011, Transformers: Dark of the Moon, þénaði til dæmis 165 milljónir Bandaríkjadala í landinu. Sú mynd var síðasta myndin sem Shia LaBeouf lék í, en Mark Wahlberg hefur nú tekið við aðalhlutverkinu í myndinni.

Iron Man 3 með kínverskan fókus einnig

Í síðustu viku var tilkynnt að Iron Man 3, sem var að hluta til tekin í Beijing og einnig fjármögnuð að hluta af kínverska fyrirtækinu DMG Entertainment, yrði gefin út með sérstöku kínversku aukaefni í Kína, auk þess sem ein stærsta kvikmyndastjarna Kínverja, Fan Bingbing, mun sjást í myndinni.