Hitamál í kringum spennumynd um Covid-23: „Talandi um ósmekklegheit“

Stikla fyrir rómantísku spennumyndina Songbird hefur farið eins og eldur um sinu á veraldarvefnum og þykir vægast sagt umdeild, líkt og margt sem kemur úr smiðju ofurframleiðandans Michael Bay.

Tökur á Songbird fóru fram í sumar og gerist sagan á tímum kórónuveirunnar, þar sem faraldurinn hefur farið gegnum ýmsar stökkbreytingar. Í vaxandi dystópíu segir hér frá ýmsu ólíku fólki í einangrun, þar á meðal pari sem þráir ekkert heitar en að komast í arma hvors annars. Þó er það hægara sagt en gert með með hertari aðgerðum í ljósi uppsveiflu faraldursins og rýrnun samfélags sem mannúðar víða.

Með helstu hlutverk fara KJ Apa, Sofia Carson, Jenny Ortega, Craig Robinson, Bradley Whitford, Peter Stormare, Alexandra Daddario og Demi Moore.

Það er Platinum Dunes, framleiðslufyrirtæki Bay, sem fjármagnar myndina og stendur – að öllu óbreyttu – til að sýna hana í kvikmyndahúsum. Þó ekki er komin dagsetning á útgáfu Songbird er áætlað að hún líti dagsins ljós á næsta ári.

Skemmst er þó að segja frá því að útgáfa – eða réttar sagt tilvist – þessarar myndar hefur reynst mörgum mikið hitamál. Notkunin á Bob Marley-laginu Three Little Birds hefur eflaust ekki hjálpað, né sú staðreynd að myndin er flokkuð undir „rómantík“ og „gamanmynd“ á IMDb.

„Of snemmt“ og „ósmekklegt“ hefur verið víða sagt um stikluna og margt verra, en hér má sjá brot úr báli umræðunnar á Twitter.