Fimman: Arnór Pálmi Arnarson

(Fimman er fastur liður á síðunni þar sem frægir fagmenn opinbera sínar topp fimm uppáhalds bíómyndir og lýsa stutt hvers vegna myndirnar á listanum voru valdar)

Upprennandi leikstjórinn Arnór Pálmi Arnarsson hefur verið að gera góða hluti á stuttum tíma, en hann er rétt skriðinn yfir tvítugt og er enn stutt síðan hann útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Íslands. Hann er leikstjóri sjónvarpsseríunnar Hæ Gosi og líka einn af handritshöfundum þáttarins. Nýlega fór önnur serían í loftið á Skjáeinum og hefur fengið þrusufínar viðtökur. Baldvin Z, leikstjóri myndarinnar Órói (sem sópaði öll verðlaun á Áhorfendaverðlaunum Kvikmyndir.is og Mynda mánaðarins), er framleiðandi þáttana sem og einn af handritshöfundunum.

Hér sjáið þið hvað er í mesta uppáhaldi hjá Arnóri:

 

Quentin Tarantino – Pulp Fiction (1994)

Sú mynd sem ég hef séð oftast á ævinni af því að ég elska hana. Hún er meistaraverk. Tarantino er snillingur í þrennu: Að búa til töffaraskap, að velja tónlist í myndirnar sínar og að casta.
Ódauðleg mynd. John Travolta er fer á kostum.


Harold Ramis – Groundhog Day (1993)

I Got You Babe með Sonny og Cher er eitt mest pirrandi lag í heiminum og það er þessari mynd að þakka. Myndin er í uppáhaldi hjá mér af því að þetta er fyndnasta mynd sem ég hef séð. Bill Murray er algjör fagmaður og svo súrt fyndinn gaur. Mesta snilldin við þessa mynd er handritið. Það hafa allir hugsað þetta: „Hvað ef ég gæti gert hvað sem er í dag og vaknað aftur á morgun og ekkert hefði breyst?“ Þessi mynd tekur þetta alla leið og er snilldarlega útfærð.


Nicolas Winding Refn – Drive (2011)

Hef ekki séð neitt annan eftir þennan leikstjóra en þessi mynd er algjör snilld. Fyrst þegar ég heyrði af þessari mynd bjóst ég við Fast and the Furios viðbjóði en þessi mynd er eitthvað allt annað. Sagan sjálf er svo sem ekkert að finna upp hjólið en útfærslan á sögunni er mjög skemmtileg. Það er svo fallegt hvað myndin fær að vera hæg en svo inn á milli koma mjög snyrtilega útfærðar action-bíla-byssu-senur. Ryan Gosling er frábær, segir nánast ekki neitt í allri myndinni sem gerir hann að svo áhugaverðum karakter. Ég vildi alltaf vita meira og meira um hann. Ryan Gosling leikur orðið ekki í nema góðum myndum. Svo er tónlistin í myndinni algjört konfekt.


Alfred Hitchcock – Dial M for Murder (1954)

Orðið SUSPENSE fékk meiningu í þessari mynd. Hitchcock var svo klár í að segja frá og gera það spennandi. Hann er uppáhalds myndmáls-leikstjórinn minn, segir allt með einum ramma sem að aðrir ná ekki að segja með tíu. Svo er Grace Kelly ein flottasta kona okkar tíma.


Srdjan Spasojevic – A Serbian Film (2010)

Þessi mynd er ein sú ógeðslegasta sem ég hef séð. Það hafa sennilega ekkert alltof margir séð hana en í stuttu máli fjallar hún um fyrrverandi klámmyndaleikara sem að tekur að sér að leika í einni klámmynd í viðbót til þess að tryggja fjárhagslegt öryggi fjölskyldu sinnar. Þegar hann mætir í tökur þá er hann látinn fá talstöð í eyrað til að fá fyrirmæli. Svo er hann dópaður upp og látinn gera allskonar viðbjóð, ekkert venjulegt klám. Ég er að tala um viðbjóðslega ógeðsleg atriði eins og að hafa mök við 6 ára son sinn. Ekki geðslegt. Ég nefni þessa mynd af því að ég hef aldrei áður upplifað svona miklar tilfinningar við að horfa á bíómynd, alls ekki góðar tilfinningar en tillfinningar samt. Ég átti hreinlega ekki orð. Það finnst mér magnað að leikin kvikmynd sem ég horfi á í Panasonic sjónvarpinu heima hjá mér fylli mig slíkum viðbjóði að ég sé orðlaus.