,,Ég ætla mér að fara með þessa mynd á Sundance"

Anna-SolNý stuttmynd frá framleiðslufyrirtækinu Alkul Films mun fara í tökur í enda mánaðarins. Fyrir helgina hófst styrktarsöfnum fyrir myndina í gegnum Karolina Fund og hefur þegar safnast í kringum helmingur af því sem vonast er eftir.

Um er að ræða stuttmyndina Sól sem fjallar um unga konu sem er að safna sér fyrir námi erlendis. Hún er meðvirkt peð eldri systur sinnar, Bríetar sem leigir Sól út sem „mennskan boxpúða“ til að veita útrás og fullnægja blæti ýmissa skuggalegra karla. Myndin endar með blóðugu uppgjöri milli systranna.

Myndinni verður leikstýrt af Aríel Jóhanni (Tönn fyrir tönn) og skrifuð af Sigurði Antoni (Ísabella). Framleiðendur myndarinnar eru Aríel Jóhann og Silja Ástudóttir hjá Alkul films.

Leikkonan Anna Hafþórsdóttir hefur tekið að sér titilhlutverkið og ættu lesendur að þekkja hana úr kvikmyndinni Vonarstræti og þáttunum Tinna og Tóta, sem sýndir voru á Bravó.

Tökur hefjast opinberlega þann 28. ágúst en Aríel segist þó ætla að grípa sólsetrið í aukatökur á meðan það er svona fallegt þessa dagana.

sol

Aríel lýsir söguhetjunni sem mikilli stríðskonu. ,,Þetta er baráttusaga ungrar konu sem lifir við viðstöðulausan mótbyr. Með sögunni um Sól vonast ég til þess að skilja eitthvað mikilvægt, krefjandi og áhugavert eftir hjá áhorfendum.“ segir Aríel.

Aríel vonast til þess að sýna stuttmyndina á hátíðum út í hinum stóra heimi og stefnir á frumsýningu á Sundance-kvikmyndahátíðinni í Bandaríkjunum. ,,Ég ætla mér að fara með þessa mynd á Sundance. Hátíðin er náttúrulega skemmtilegur kostur vegna titils myndarinnar“.

Þeir sem vilja leggja myndinni lið er bent á að fara á opinbera styrktarsíðu myndarinnar sem má nálgast hér.