Darth Maul leikari segir Rian Johnson ekki skilja Star Wars

Bandaríski leikarinn Sam Witwer, sem þekktur er af mörgum Star Wars unnendum sem rödd Sith-lávarðsins Darth Maul í þáttunum The Clone Wars og Rebels, hefur bæst við hóp þeirra sem voru allt annað en ánægðir með áttunda kafla Skywalker-sögunnar, The Last Jedi.

Eins og mörgum er kunnugt var myndin leikstýrð og skrifuð af nokkrum Rian Johnson (Looper, Knives Out) og var ljóst strax frá frumsýningu The Last Jedi árið 2017 að um væri að ræða umdeildu mynd seríunnar frá upphafi. Þó dómar gagnrýnenda hafi verið jákvæðir að mestu leyti hafa Stjörnustríðsaðdáendur verið duglegir að láta í sér heyra.

Vinnubrögð Johnsons hafa víða verið gagnrýnd og virðist Darth Maul-leikarinn vera á þeirri skoðun að kvikmyndagerðarmaðurinn hafi ekki unnið heimavinnu sína nægilega vel. Segir hann myndin búa yfir ýmsum kostum en passi ekki inn í Star Wars kanónuna.

Witwer lét þessi ummæli falla á meðan hann var með streymi á vefnum Twitch þar sem hann spilaði tölvuleikinn Star Wars: Battlefront. „Fyrir mér var þetta eins og kvikmynd gerð af manni sem skilur ekki alveg út á hvað þetta [Star Wars] gengur,“ segir leikarinn.

„Rian Johnson er hæfileikaríkur maður en Bruce Lee þróaði ekki Jeet Kune Do án þess að læra Kung Fu. Það er ekki hægt að enduruppgötva Star Wars án þess að þekkja merkið fyrst, sem hann gerði ekki. Sem dæmi færði [Johnson] aldrei almennilega rök fyrir því hvers vegna Luke fór ekki að hjálpa systur sinni.

Það er ýmislegt grípandi í The Last Jedi frá sjónarhorni kvikmyndagerðar en þetta passaði ekki í þennan heim. Johnson sinnti ekki Star Wars heimavinnunni sinni; eins og að skoða þemun og hvað það er sem persónurnar snúast um.“

Þá er vonandi að komandi Stjörnustríðsmynd grínarans Taika Waititi falli betur í kramið hjá meirihlutanum.