Cooper yrði níundi Óskarstilnefndi fyrir bæði leik og leikstjórn

Bradley Cooper er líklega í sjöunda himni þessa dagana útaf góðum viðtökum sem nýjasta kvikmynd hans A Star is Born er að fá, en myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum fyrr í haust, og fékk þar glimrandi dóma.

Margir hafa spáð Cooper Óskarstilnefningum, bæði fyrir leik hans í myndinni, og fyrir leikstjórnina. Spávefsíðan Goldderby.com hefur tekið saman hve margir aðrir hafi fengið tilnefningu fyrir einmitt þetta, þ.e. leik og leikstjórn fyrir sömu kvikmyndina, og í ljós kemur að ef Cooper fær þessar tilnefningar, verður hann níundi aðilinn til að ná þeim árangri.

Fari svo að hann vinni í báðum flokkum, yrði hann hinsvegar sá fyrsti til að ná því.

Hinir átta eru eftirfarandi, en tveir eru tvisvar á listanum:

1. Orson Welles, “Citizen Kane” (1941)
2. Sir Laurence Olivier, “Hamlet” (1948)
3. Woody Allen, “Annie Hall” (1977)
4. Warren Beatty, “Heaven Can Wait” (1978)
5. Warren Beatty, “Reds” (1981)
6. Kenneth Branagh, “Henry V” (1989)
7. Kevin Costner, “Dances with Wolves” (1990)
8. Clint Eastwood, “Unforgiven” (1992)
9. Roberto Benigni, “Life Is Beautiful” (1998)
10. Clint Eastwood, “Million Dollar Baby” (2004)

Eins og sést á þessum lista eru þeir Beatty og Eastwood þeir einu sem hafa fengið þessa tvennu tvisvar. Fjórir aðilar, í fimm tilvikum – Allen, Beatty fyrir Reds, Costner og Eastwood í bæði skiptin – unnu sem besti leikstjóri en ekki sem besti leikari.  Olivier og Benigni unnu verðlaunin fyrir leik, en ekki fyrir leikstjórn, sem þýðir að þeir eru einu aðilarnir sem hafa leikstýrt sjálfum sér að Óskarsverðlaunum. Welles, Branagh og Beatty fyrir Heaven Can Wait misstu af báðum verðlaunum. Síðan Welles vann Óskarinn fyrir handritið að Citizen Kane, þá er Branagh, sem er fimmfaldur Óskarstilnefningahafi, sá eini sem á eftir að vinna verðlaunin.

Samkvæmt spám Gold Derby er Cooper núna sá sem er þriðji líklegastur til að vinna verðlaunin, en næstir á undan honum eru Alfonso Cuaron ( Roma ) og Damien Chazelle ( First Man ). Aðrir sem Gold Derby spáir tilnefningum eru Spike Lee ( BlacKkKlansman ) og Yorgos Lanthimos ( The Favourite ).

Cuaron og Chazelle hafa báðir unnið verðlaunin nýlega, fyrir Gravity og La La Land. 

Vefsíðan spáir Cooper Óskarnum fyrir leik, en næst líklegastir á eftir honum eru Christian Bale ( Vice ), Ryan Gosling ( First Man ), Viggo Mortensen ( Green Book ) og Willem Dafoe ( At Eternity’s Gate ).

Cooper var í miklu stuði fyrr á þessum áratug, en hann varð þá 10. leikarinn til að ná þremur Óskarstilnefningum í röð, fyrir Silver Linings Playbook  (2012) , American Hustle (2013) og American Sniper (2014) .

Þá hefur hann verið tilnefndur fyrir framleiðslu á American Sniper.

Ef Cooper fær ekki styttuna fyrir leik eða leikstjórn, á hann enn von á henni í flokknum Besta mynd, þar sem að hann er framleiðandi A Star is Born. Sömuleiðis getur hann átt von á Óskarnum fyrir handritið, sem hann er meðhöfundur að.  Þá átti hann þátt í að semja nokkur lög í myndinni.

Tilnefningar til Óskarsverðlauna verða tilkynntar þann 22. janúar nk.