Carrey sefur á glóandi kolum – Ný stikla

Ný stikla er komin fyrir grínmyndina The Incredible Burt Wonderstone, eftir leikstjórann Don Scardino, sem þekktastur er fyrir sjónvarpsþætti eins og 30 Rock, Royal Pains, Law and Order ofl.
Eins og sjá má í meðfylgjandi stiklu er um að ræða æsispennandi keppni á milli töframanna, þar sem menn finna upp á ótrúlegustu brellum til að heilla áhorfendur, eins og að sofa á heitum kolum, eða halda í sér pissinu í margar vikur!

Myndin fjallar um töframanninn Burt Wonderstone sem má muna sinn fífil fegri, leikinn af Steve Carell, og félaga hans Anton Marvelton, sem Steve Buscemi leikur.

Töfrasýning þeirra var eitt sinn sú allra heitasta í bænum, en nú er öldin önnur, auk þess sem félagarnir eru hættir að þola hvorn annan.

Það bætir ekki úr skák að nýr funheitur götutöframaður að nafni Steve Gray, sem leikinn er af Jim Carrey, er núna orðinn stærsta nafnið í bænum.

Til að reyna að bjarga ferlinum þá ákveður Burt að spýta í lófana og bæta atriðin sín, sem verður til þess að hann finnur aftur ást sína á göldrum.

Í myndinnni leikur fjöldi þekktra leikara annarra, svo sem Olivia Wilde, Alan Arkin, James Gandolfini, Gillian Jacobs, Brad Garrett og Jay Mohr.

Smellið hér til að skoða stikluna í HD á heimasíðu Apple,

eða hér á að neðan: