Aronofsky spenntur fyrir The Wolverine því allir eru spenntir

Kvikmyndagerðarmaðurinn Darren Aronofsky er spenntur fyrir að gera myndina The Wolverine þar sem hann hefur góðan stuðning allra í kringum sig.
Aronofsky var valinn öllum að óvörum til að leikstýra myndinni, sem gerð verður eftir vinsælli teiknimyndasögu. Sögusvið myndarinnar verður Japan.
Leikstjórinn viðurkennir að þetta sé í fyrsta skipti sem hann vinnur að mynd þar sem allir hafa sama markmið og hann.
Hann segir: „Í hvert skipti sem ég byrja á nýrri mynd, þá segja allir; „hvern andskotann er hann nú að gera?“ Þannig að vonandi hef ég tækifæri til að koma fólki á óvart rétt eina ferðina. Ég mun reyna að skemmta mér vel í verkefninu.
Í öllum myndum sem ég hef gert hingað til, þá hef ég verið eina manneskjan sem hefur viljað gera myndina, þannig að núna er ég spenntur að gera mynd sem allir eru spenntir yfir – bara til að vita hvernig sú tilfinning er.“
Þrátt fyrir það þá segir Aronofsky, sem meðal annars er þekktur fyrir myndina The Black Swan, að hann muni ekki breyta sínum stíl á neinn hátt. Hann segir í samtali við Total Film: „Það er ekki eins og ég ætli að breyta mínu verklagi – ég ætla að vinna með sama fólkinu og reyna að gera eitthvað nýtt og spennandi. Við sjáum svo hvað kemur út úr því.“
Hann bætir svo við: „Ég held að ég hafi verið ráðinn í þetta verkefni vegna þess hver ég er, en ekki til að breyta mér í einhvern annan. Við ætlum að gera eitthvað frábært, en það verður mjög öðruvísi.“
Í The Wolverine mun Hugh Jackman snúa aftur sem hinn stökkbreytti Wolverine í fimmta skipti, og mun myndin koma í bíó á næsta ári.