Angelina Jolie skoðar Ólympískan stríðsfanga

Leikkonan og leikstjórinn Angelina Jolie er í þann veginn að færa sig aftur á bakvið kvikmyndatökuvélina, til að leikstýra myndinni Unbroken.

Samkvæmt Deadline vefsíðunni þá er Jolie á lokametrunum í samningaviðræðum sínum við Universal Pictures. Unbroken segir sanna sögu af Louis Zamperini, hlaupara sem keppti á Ólympíuleikunum, en lenti svo í fangabúðum Japana í Seinni heimsstyrjöldinni.

Zamperini keppti á Ólympíuleikunum í Berlín árið 1936 og frammistaða hans var svo góð að nasistaleiðtoginn Adolf Hitler óskaði eftir að fá að hitta hann, en af því varð aldrei.

Zamperini endaði svo á því að berjast í Seinni heimsstyrjöldinni en flugvél hans var skotin niður yfir Kyrrahafinu. Hann lifði flugslysið af og eyddi 47 dögum á fleka og lifði þær raunir af þrátt fyrir skort á mat og vatni, og árásir hákarla. Félagi hans á flekanum lést hinsvegar.

Flekann rak til Marshall eyja þar sem japanskir hermenn björguðu honum, en þá tók ekki betra við, þar sem hann var lokaður inni í hrottalegum stríðsfangabúðum í tvö og hálft ár, og barinn og niðurlægður allan tímann, og hótað lífláti nær daglega.

Árið 1998 hélt Zamperini á Ólympíueldinum á Vetrarólympíuleikunum í Nagano í Japan. Þá hafði hann fyrirgefið aðal misgjörðarmanni sínum, Mutsuhiro Watanabe, sem, þrátt fyrir það, neitaði að koma og hitta hann. Zamperini er enn á lífi í dag, og verður 96 ára í janúar nk.

Skrifað af Gladiator höfundi

Handrit myndarinnar er skrifað af William Nicholson sem skrifaði handritið að Gladiator, en fyrstu drög skrifaði Richard LaGravanese. Handritið er byggt á sögunni Unbroken: A World War II Story of Survival, Resilience and Redemption,  sem er ævisaga Zamperini eftir Laura Hillenbrand.

Jolie segir um verkefnið: „Ég las þessa frábæru bók Laura Hillenbrand, og var snortin af hetjulegri sögu Louie Zamperini. Ég byrjaði strax að berjast fyrir því að gera mynd eftir sögunni.“

Samkvæmt Deadline þá á Jolie enn eftir að samþykkja lokaútgáfu handrits áður en hún getur skrifað undir samning um að leikstýra, en tökur eiga að hefjast á næsta ári.  Unbroken yrði önnur myndin sem Jolie leikstýrir, en fyrsta mynd hennar var In The Land Of Blood And Honey, sem var rómantísk dramamynd sem gerðist á stríðstímum í Sarajevo í gömlu Júgóslavíu.