Eftirfarandi er fréttatilkynning frá Amnesty International á Íslandi.
Amnesty International, í samstarfi við Bíó Paradís, stendur fyrir kvikmyndadögum dagana 3.-13. nóvember næstkomandi. Áhorfendum kvikmyndadaga er boðið í ferðalag, ferðalag sem leiðir þá til allra heimshorna og veitir innsýn í líf og aðstæður fólks. Sýndar verða tólf ólíkar myndir sem allar hafa unnið til alþjóðlegra verðlauna, hver með sína nálgun á viðfangsefnið.
Yfirskrift kvikmyndadaga Amnesty International vísar í starf samtakanna síðustu fimmtíu ár. Félagar í samtökunum neita að líta undan og krefjast þess að mannréttindabrot séu gerð sýnileg en ekki reynt að fela þau. Myndmál er miðlægt í lífi okkar allra í dag og myndir notaðar til að sýna og túlka raunveruleikann. Sú áskorun sem tekist er á við lýtur að því hvernig hægt sé að sýna fólki, sem býr fjarri þeim stöðum þar sem mannréttindabrot eiga sér stað, raunveruleika þeirra brota og um leið að fá fólk til að taka afstöðu gegn brotunum og grípa til aðgerða til að stöðva þau. Reynt er að varpa ljósi á aðstæður í daglegu lífi og umhverfi fólks og áhrif aðgerða og/eða aðgerðaleysis yfirvalda og annarra á líf þess. Aðdráttarafl heimildarmynda byggir ekki síst á því að myndefnið gefur tilvísun í líf utan myndanna og tækifæri til samskipta þvert á öll landamæri. Heimildarmyndir fela í sér tilraun til að ljá hinum ósýnilegu rödd.
Framleiðandi Travel Advice for Syria, Peter Löfgren, verður heiðursgestur hátíðarinnar. Hann verður viðstaddur sýningu myndarinnar þann 8. nóvember og svarar spurningum kvikmyndagesta að lokinni sýningu.
Yfirlit yfir myndir kvikmyndadaga Amnesty International
Í Nero´s Guests fylgjumst við með blaðamanni sem skrifar um fátækt og sjálfsmorðsfaraldur meðal indverskra bænda.
Myndin Pink Saris kynnir baráttu konu gegn ofbeldi og erfðastéttakerfinu á Indlandi.
Silent Snow segir frá ungum Grænlendingi sem leitar orsaka þeirrar mengunar sem ógnar samfélagi inúita.
The Devil Operation er mynd sem á mjög áhrifamikinn hátt segir frá áhrifum námavinnslu
á líf bænda í Perú og hvernig námafyrirtæki skirrast ekki við að ógna íbúum.
The Green Wave byggir á Twitter- og bloggfærslum frá Íran í aðdraganda og í kjölfar kosninganna árið 2009, við fáum innsýn í atburðina í gegnum sögu ungs stúdents.
The Jungle Radio leiðir okkur til Níkaragva þar sem við fylgjumst með lífi konu sem rekur
útvarpsstöðina Raddir kvenna.
The Mobile Cinema leiðir okkur til Kongó þar sem hópur kvikmyndagerðarfólks ferðast
um stríðshrjáð svæði og sýnir íbúum kvikmynd í þeim tilgangi að hafa áhrif á viðhorf
fólks til nauðgana.
Í myndinni Budrus kynnumst við tilraunum Palestínumanns til að leiða saman ólíka hópa í friðsamlegri baráttu gegn aðskilnaðarmúrnum sem ógnar afkomu íbúa þorpsins Budrus.
Nowhere in Europe færir okkur sögu fjögurra flóttamanna frá Tsjetsjeníu. Við kynnumst þeim hindrunum sem flóttafólk stendur frammi fyrir í leit sinni að griðastað.
Í myndinni An Independent Mind er tekist á við tjáningarfrelsið, kynntar eru sögur fólks
frá ólíkum löndum sem hvert á sinn hátt nýtir þennan grundvallarrétt andspænis ógnandi valdi.
Sisters in Law flytur okkur til Kamerún þar sem við kynnumst systrum sem báðar starfa
sem lögfræðingar og fylgjumst með starfi þeirra í þágu kvenna og barna.
Heimildarmyndin Travel Advice for Syria veitir einstaka innsýn í sýrlenskt samfélag í
aðdraganda uppreisnarinnar.