Alltaf bekkjartrúðurinn

Jo Koy, 51 árs, aðalleikari Easter Sunday, eða Páskadags, sem komin er í bíó hér á landi, segist í samtali við New York Times alltaf hafa verið bekkjartrúðurinn í skóla.

„Ef þú skoðar árbækurnar úr skólanum þá er ég alltaf bekkjartrúður, bekkjartrúður, bekkjartrúður,“ segir Koy.

Brandon Wardell og Jo Koy í Easter Sunday.

Í greininni kemur fram að Koy hafi byrjað uppistandsferilinn í hæfileikakeppnum sem móðir hans stóð fyrir, þar sem hún var að reyna að efla samheldni filippeysk-bandaríska samfélagsins í heimabænum Tacoma Wash. „Mamma fór í kirkjur og leitaði að brúnu fólki sem leit út eins og hún,“ segir Koy.

Fékk fimm mínútur

Eitt fyrsta stóra tækifæri Koy var þegar hann var beðinn um að hita upp á Def Comedy Jam uppistandsviðburði árið 1996. Þar mátti hann flytja fimm mínútna dagskrá, en varð að gera það áður en tjaldið var dregið frá og ljósin slökkt – sem þýðir í raun að hann átti að gera þetta áður en sýningin byrjaði. „Þeir sögðu, ekki segja „Velkomin á Def Jam“ og ekki segja  „Njótið Def Jam,“ segir Koy. „Í raun, ef ég myndi skíta á mig, þá vildu þeir ekki tengja mig við Def Jam.“

 Eugene Cordero, Koy og Lou Diamond Phillips í Easter Sunday.

Í gegnum árin hefur grínistinn farið frá því að koma fram á Star Search í Las Vegas, sem hann segir hafa verið algjörlega misheppnað hjá sér, og allt upp í að vera aðalnúmerið í stórum tónleikahöllum og íþróttaleikvöngum. „Ég er loksins núna að fara að koma fram í Madison Square Garden í New York,“ segir hann.

Tali með hálf filippeyskum hreim

Í Easter Sunday leikur Koy Joe Valencia, filippeysk-bandarískan grínista sem er um það bil að fara að fá sína eigin grínseríu framleidda – svo lengi sem hann gerir eins og framleiðandinn óskar, að tala með „hálf-filippeyskum hreimi“, því það yrði fyndnara þannig. „Þú ert hálf filippeyskur ekki satt?“

Blaðamaður New York Times spyr Koy að því afhverju hann hafi viljað verða grínisti. Hann svarar og segist ungur hafa orðið heillaður af uppistandi. „Eddie Murphy, Richard Pryor, Whoopi Goldberg, Robin Williams. Ég vildi verða grínisti strax 10 ára gamall. Þegar Delirious uppistandssýning Eddie Murphy var frumsýnd á HBO, þá tók systir vinar míns hana upp fyrir mig og gaf mér á spólu, því við vorum ekki með HBO. Ég horfði á hana milljón sinnum.

Rasismi innan fjölskyldunnar

Koy, sem er hálfur hvítur og hálfur filippeyskur, eins og hann lýsir sér í greininni, þurfti að takast á við rasisma innan eigin fjölskyldu. „Það voru fjölskyldumeðlimir pabba megin sem horfðu skringilega á okkur og létu okkur líða illa.“

Þá minnist hann þess að hafa þurft að horfa upp á mömmu sína verða fyrir kynþáttaníði.

Tia Carrere og Lydia Gaston í Easter Sunday.

Koy er síðan spurður að því hvernig hugmyndin að Easter Sunday hafi fæðst.

„Þegar ég horfði á [sjónvarpsþættina] Friday, þá gat ég ekki fengið nóg af þeim. Þeir snertu við mér því mér fannst þetta vera eins og mín eigin fjölskylda. Ég skildi húmorinn, og sá tilvísanirnar. Þetta leit út eins og húsið mitt, þú veist?  Þau gengu í gegnum það sama og við gerðum.

Jo Koy, í miðjunni, ásamt Joey Guila, Elena Juatco, Eugene Cordero, Tia Carrere, Melody Butiu og Lydia Gaston í Easter Sunday.

Þannig að þegar ég fór að hugsa um kvikmynd, þá hugsaði ég, hvernig get ég gert það sama, þar sem ég tala um mína menningu, og minn uppruna, en samt sagt fjölskyldusögu og birt alla skrítnu karakterana sem eru í öllum fjölskyldum? Þá hugsaði ég; Easter Sunday. Það er dagurinn þegar allir koma saman, fólk byrjar að slást, og gráta. Ég vildi geta sagt þessa sögu yfir einn dag, og þetta er stór dagur í minni fjölskyldu. Páskadagur.“