Á furðueyju

Menn og hænsn var RIFF mynd gærdagsins á kvikmyndir.is. Myndin hefur greinilega spurst vel út á hátíðinni. Fyrsta sýning var í Háskólabíói á laugardaginn síðasta, en í gær var hún sýnd fyrir fullum sal 1 í Bíó Paradís.

Myndin er gráglettin gamanmynd í einskonar furðustíl, og ekki alltaf ljóst hvert hún ætlar sér að fara. Persónurnar eru kostulegar, og aðalleikararnir, sem við þekkjum flesta úr dönskum kvikmyndum og þáttum ( Mads Mikkelsen þeirra þekktastur ) eru í bland ófrýnilegir og aðlaðandi í ljótleika sínum. Búið er að breyta þeim á ýmsa kanta, ( stór beygluð nef, skarð í vör ) og  óhætt að hrósa förðunarfólki, og búninga- og leiktjaldafólki, fyrir sinn þátt í myndinni.

menn

Í stuttu máli fjallar myndin um bræðurna Gabriel og Elias, sem maður sér fljótt að eru ekki eins og fólk er flest. Gabriel er útbrunninn háskólaprófessor, en bróðir hans hefur aðeins áhuga á tilgangslausum fróðleik og því að fróa sér, enda kynlífsfíkill.

Þegar aldraður faðir þeirra fellur frá skilur hann eftir sig myndband, stílað á þá bræður, þar sem hann játar að vera ekki líffræðilegur faðir þeirra. Bræðurnir komast í mikið uppnám og sammælast um að finna uppruna sinn. Leitin leiðir þá til eyjarinnar Ork þar sem faðir þeirra býr, en á móti þeim þar tekur rytjulegt samansafn manna, bræðra þeirra, sem við fyrstu kynni ráðast að þeim af fullri hörku með stóreflis bareflum, uppstoppuðu dýri, tunnu og viðarplanka, og lemja þá í spað.

Þetta er aðeins byrjunin á sögu sem fjallar um genabreytingar, geðsýki og félagslega hluti, en eyjan stendur frammi fyrir því að mást útaf landakortinu vegna síminnkandi íbúafjölda.

Myndin er einkum skemmtileg vegna bræðranna furðulegu, útlits þeirra og frumstæðra samskipta. Hún fór vel af stað, en dalaði aðeins þegar leið á.