Helmingur fugla syngur

RIFF mynd dagsins á kvikmyndir.is var myndin The Messenger eða Sendiboðinn í íslenskri þýðingu. Myndin fjallar um litla söngfugla en í myndinni er fullyrt að helmingur allra fugla í heiminum syngi.

songbird

Myndin veltir upp tilveru og framtíð þessara fugla í heiminum, með sterkri vísun í umhverfisvernd, eyðingu skóga, loftslagsbreytingar, skordýraeitur og annað sem ógnar fuglunum.

Í þessu samhengi er spurt spurningarinnar; „hvernig yrði heimurinn án þessara fugla“, og hvað gerist ef þeir myndu hverfa – myndi það ekki leiða einhver ósköp yfir heiminn þegar einn hlekkurinn í vistkeðjunni yrði tekinn í burtu?

Athyglisverð var upprifjunin á tilrauninni sem var gerð í Kína á dögum Maó formanns, er hann fyrirskipaði að láta útrýma öllum þröstum, af þeirri ástæðu að þeir væru að éta uppskeruna. Voru sýndar gamlar fréttamyndir af Kínverjum að berja bumbur og veifa allskonar dóti úti í loftið til að tryggja að fuglarnir gætu ekki sest, til að þeir dæju að lokum úr þreytu. Þeir höfðu enda erindi sem erfiði og fuglarnir dóu og allir voru ánægðir – eða þar til skordýraplágan reis upp magnaðari en nokkru sinni, og án þess að nokkur fugl væri nálægt til að borða pöddurnar. Þetta hafði í för með sér hrikalegan uppskerubrest og 30 milljón manns dóu í kjölfarið.

Í myndinni kemur einnig fram sú athyglisverða staðreynd að kettir eru ábyrgir fyrir dauða 1,4 milljarða söngfugla á ári. Þá eiga speglabygginar í borgum sök á dauða fjölda fugla, ( fuglanir fljúga á rúðurnar í stórum stíl ) og einnig ljósmengun ( ruglar þá á í ríminu ) og hávaðamengun ( þeir heyra ekki í hvorum öðrum til dæmis þegar þeir eru að leita sér að maka). Ýmsir sérfræðingar tjáðu sig um þessi mál frá þessum ólíku hliðum öllum og myndin var hin athyglisverðasta, þó að hún hafi á köflum verið kannski full vísindaleg.