Ferðaleg með dauðum eiginmanni

Japanska verðlaunamyndin Journey to the Shore var kvikmyndir.is mynd dagsins á RIFF í gær, laugardag.

Myndin, sem er sýnd í Bíó Paradís, byrjaði hálftíma á eftir auglýstum tíma, 21.30, sem varð þess valdandi að sá sem þetta skrifar þurfti að hlaupa út af myndinni áður en hún var búin, til að sækja bíl í bílageymslu fyrir miðnætti, en myndin er rúmir tveir tímar að lengd.

Journey-To-The-Shore_by-Kurosawa-Kiyoshi_film-still3

Söguþráður myndarinnar er þessi: Þremur árum eftir að Yusuke drukknaði undan norðuströnd Japans, snýr hann aftur heim eins og ekkert hafi í skorist til ekkju sinnar Mizuki og býður henni í ferðalag að ströndinni þar sem hann kvaddi heiminn. Ljúfsár draugaástarsaga sem sýnir að náin tengsl rofna ekki handan lífs og dauða.

Eins og segir í lýsingu myndarinnar er þetta ljúfsár mynd. Manni er haldið í óljósum skilum á milli draums og veruleika, er hann í raun dáinn? ( líkið fannst aldrei, en hann segir það hafa verið étið af kröbbum ), eða er ekkjunni að dreyma. Þau hitta fólk sem hann hefur átt samskipti við þessi þrjú ár síðan hann dó, sumt er sjálft dáið, annað ekki. Fljótlega kemur í ljós að ekki er allt sem sýnist, og einhverjar beinagrindur er að finna í skápnum.

Endurtekin þemu í myndinni eru píanóleikur, komið er inn á stöðu konunnar í Japan, matur skipar sinn sess, og tilgangur lífsins og lífsgangan sjálf er ákveðið þema í gegnum myndina, sem er eins og gefur að skilja dálítið súrrealísk á köflum, þar sem dauði maðurinn kemur fram rétt eins og hann sé sprelllifandi.

Endir myndarinnar er ráðgáta af ofangreindum ástæðum, en síðasta tækifæri til að sjá myndina, og endinn líka, er á mánudaginn kl. 22.15. Best að koma þá tímalega og láta bílastæðahúsið eiga sig.