YouTube með „ókeypis“ bíómyndir

YouTube vídeósíðan hefur síðustu misseri boðið notendum sínum upp á að horfa á bíómyndir í fullri lengd, en þá gegn greiðslu. Þetta hefur verið í boði í gegnum YouTube Originals eða YouTube  TV, en með mjög takmarkaðri dreifingu, og því er fjöldi notenda sem ekki á þess kost að nota þjónustuna.

Nú berast hinsvegar fregnir af því að YouTube sé byrjað að bjóða upp á ókeypis kvikmyndir í fullri lengd, en mun í staðinn birta auglýsingar í kvikmyndunum.  Frá þessu er sagt á AdAge vefsíðunni.

Í fréttinni segir að YouTube hafi gert þetta síðan í október sl.,  og sýnt myndir eins og The Terminator og Legally Blonde. Telur vefsíðan að um gríðarlegt viðskiptatækifæri sé að ræða.

YouTube hefur nú staðfest opinberlega þessa nýju stefnu. Rohit Dhawan vörustjóri YouTube segir: „Við sáum að þetta var eitthvað sem notendur vildu sjá, auk þess að geta líka horft á kvikmyndir gegn greiðslu. Gætum við boðið kvikmyndir með auglýsingum, frítt ? .. Þetta er líka gott tækifæri fyrir auglýsendur.“

Eins og flestir ættu að vita þá setur YouTube auglýsingar í myndböndin á síðunni, sem er ein af leiðunum fyrir framleiðendur myndbandanna að fá tekjur af þeim. YouTube hefur ekki viljað segja frá því enn hvernig það hyggst skipta tekjum á milli sín og framleiðenda kvikmyndanna.

Nú eru í boði frekar fáar myndir, eða um 100, samkvæmt þessu kerfi, og ekki endilega nýjustu myndirnar á markaðnum, myndir eins og Zookeper með Kevin James og Agent Cody Banks.

En fyrir þá sem vilja horfa á ókeypis bíómyndir á netinu á lögmætan hátt, þá er þetta amk. mjög góð leið til þess.