Vill myrða Gucci

Ein ný kvikmynd kemur í bíóhús nú um helgina og hún er ekki af verri endanum. Um er að ræða hina sannsögulegu House of Gucci eftir engan annan en stórleikstjórann Ridley Scott ( Gladiator, Alien, Blade Runner ).

Myndin var frumsýnd í Bandaríkjunum um síðustu helgi, Þakkargjörðarhelgina. Hún fór beint í þriðja sæti aðsóknarlistans þar vestra með fjórtán milljónir dala í aðgangseyri. Þegar þetta er skrifað eru tekjurnar komnar í meira en tuttugu og tvær milljónir dala.

Hlaðin stórstjörnum

Myndin er hlaðin stórstjörnum, og nægir þar að nefna söngkonuna Lady Gaga sem leikur Patrizia Reggiani og Adam Driver sem leikur Maurizio Gucci, barnabarn fatahönnuðarins ítalska Guccio Gucci. Myndin fjallar einmitt um það þegar Reggiani leggur á ráðin um að láta myrða Gucci. Sagan spannar þrjá áratugi af ástum, svikum, hnignun, hefnd og að lokum morði, árið 1995. Við kynnumst þýðingu nafns, hvers virði það er og hvað fjölskylda gengur langt til að halda yfirráðum sínum.

Stórleikarar fara með helstu hlutverk.

Hin 35 ára Gaga lagði gríðarlega vinnu í undirbúning undir hlutverkið í myndinni, en hún talaði ensku með skýrum ítölskum hreim í níu mánuði og sökkti sér svo djúpt inn í persónuna sem hún var að leika að hún var farin að hugsa og líða eins og Reggiani, jafnvel þegar tökuvélarnar voru ekki í gangi.

„Ég held að það hafi verið nauðsynlegt fyrir mig að æfa mig jafn mikið og ég gerði. Ég æfði mig að tala svona við móður mína, við vini mína, svo að ég, Stefani, gæti talað svona og það myndi hljómar eðlilega. Þetta er eins og vöðvaminni, þannig að þegar þú ert að leika, þá er hreimurinn ekki framandi í eðlilegu flæði hlutanna í rýminu.

Ef ég ætti að syngja á djasstónleikum í næstu viku, ef ég æfði ekki tímanlega, þá yrði röddin mín ekki tilbúin. Mín aðkoma að þessu verkefni var ekkert ólík því hvernig ég nálgast tónlistina. En ég vil ítreka þetta: þetta er ekki til að gera mikið úr leikaðferðinni Method Acting ( tækni sem kennd er við Stanislavsky þar sem leikari kallar fram tilfinningar og reynslu úr eigin lífi og notar til að tengjast persónunni sem hann er að leika), að það að vera í karakter sé eina leiðin til að gera hlutina. Það hefði verið erfiðara fyrir mig að fara inn og út úr karakter, en að halda mér í karakter allan tímann,“ segir Lady Gaga við New York Times.

Metnaðarfull

Kvikmyndin er byggð á bókinni „The House of Gucci: A Sensational Story of Murder, Madness, Glamour, and Greed“ eftir Sara Gay Forden. Myndin segir frá hinni metnaðarfullu Reggiani þegar hún stígur í vænginn við Maurizio Gucci og giftir sig inn í þetta þekkta ítalska lúxus-tískuveldi. Maurizio hefur lítinn áhuga á fjölskyldufyrirtækinu en er þeim mun meira hneigður að bókum. Með stjórnun fyrirtækisins fer faðir hans Rodolfo ( Jeremy Irons ) og Aldo ( Al Pacino). Ef Patrizia ætlar að ná einhverjum frama innan fjölskyldunnar þá verður hún að etja fólkinu gegn hverju öðru. Að lokum, þá eru Patrizia og Maurizio komin upp á kant við hvort annað og reiði hennar þróast út í morðæði.

Í samtalinu við The New York Times segist Lady Gaga hafa verið á flóknum stað í lífinu þegar handritið að fyrstu myndinni sem hún lék aðalhlutverk í barst henni, A Star is Born. Þá glímdi hún við þunglyndi á sama tíma og hún var að taka upp plötuna Chromatica sem kom út árið 2020. Leikkonan, sem fæddist sem Stefani Joanne Angelina Germanotta, hugsaði jafnvel um það hvort hún vildi vera Lady Gaga lengur. Þegar House of Gucci bauð henni að verða önnur persóna, þá stökk hún á tækifærið.

Aldrei betri reynsla

Hún segist í samtalinu aldrei hafa átt betri reynslu af leikstjóra en hún hafði af Ridley Scott, 83 ára. „Hann elskar listamenn en sumir leikstjórar gera það ekki. Þeir elska sjálfan sig.“