Verður Washington Two Face í nýju Batman myndinni?

BlacKkKlansman leikarinn John David Washington gæti verið á leið í nýju Batman myndina með Robert Pattinson, sem leikur þar titilhlutverkið. Samkvæmt vefsíðunni Geeks Worldwide gerast hlutirnir núna hratt í framleiðsluferli myndarinnar, sem upphaflega átti að vera leikstýrt af Ben Affleck, en nú er það Matt Reeves ( War for the Planet of the Apes, Cloverfield ) sem stýrir skútunni.

Two Face og mögulegur Two Face.

Hlutverkið sem sagt er að Washington eigi mögulega á að leika, er vel þekktur þorpari í Batman heiminum, sjálfur Harvey Dent, stjórnmálamaður í Gotham borg, sem breytist síðar í Two-Face.

Aðrir sem leikið hafa persónuna eru Billy Dee Williams í Batman sem Tim Burton leikstýrði, og Aaron Eckhart í The Dark Knight, sem Christopher Nolan leikstýrði.

Sagt er í fréttinni að formlegar viðræður séu ekki hafnar við leikarann, en Matt Reeves hafi góðar gætur á honum.

Washington hefur verið á hraðferð upp stjörnuhimininn í Hollywood síðustu misseri. Hann fékk fyrsta stóra tækifærið í þáttunum Ballers á HBO sjónvarpsstöðinni ásamt Dwayne Johnson, en svo var það Óskarsmyndin BlacKkKlansman sem kom honum rækilega á kortið. Eftir frammistöðuna þar fékk hann hlutverk í nýjustu mynd Christoper Nolan, Tenet. Þar fer Robert Pattinson reyndar líka með eitt aðalhlutverkanna, hvort sem það er tilviljun eður ei.

Lítið er annars vitað enn um nýju Batman myndina. Geeks Worldwide segist hafa heyrt að boðið verði upp á nokkra þekkta erkióvini Batman í myndinni, persónur eins og Mörgæsina (Penguin) , Kattarkonuna ( Catwoman) og Gátumanninn (Riddler ).

Talið er að tökur kvikmyndarinnar muni hefjast snemma á næsta ári, en verið er að púsla saman tökuliðinu. Nýjasta viðbótin þar er enginn annar en kvikmyndatökumaðurinn Greig Fraser ( Rogue One: A Star Wars Story ).

Frumsýning myndarinnar er áætluð þann 25. júni, 2021.