Ég hlýt að vera einn af mjög fáum kvikmyndaáhugamönnum á Íslandi sem fór ekki á The Dark Knight þegar hún kom út í bíó árið 2008. Eins og er, veit ég ekki ástæðuna af hverju ég fór ekki á hana, enda var lítið sem engin ástæða af hverju ég ætti ekki að sjá hana og allir sem höfðu séð hana elskuðu hana. Ég tók hana ekki fyrr en ári síðar á leigu. Álit mitt á henni er að ég fíla hana í tætlur, get skilið af hverju fólk elskar hana meira en ég, en ég verð að játa að þetta er ekki besta mynd byggð á myndasögu sem ég hef séð, en þær myndir sem trompa hana er mjög fáar.
Fyrri mynd Nolan um Batman, Batman Begins, er, að mínu mati, ein ofmetnasta kvikmynd sem ég hef séð. Það er mikið gott við hana, eins og til dæmis það að hún gefur sér góðan tíma í að kynna forsögu Bruce Wayne, en á móti eru margir mismunandi stórir hlutir sem bögguðu mig, eins og Rachel, hversu mikið hefði mátt laga slagsmálasenurnar og að Scarecrow var algjörlega hent úr klæmaxinu svo Ra's Al Ghul gæti komið í staðinn, en mér fannst hann vera miklu óáhugaverðari karakter.
Sem betur eru flest allir gallar sem ég sá í Batman Begins ekki sjáanlegir í The Dark Knight. Hasaratriðin eru til dæmis miklu betri í þessari mynd og spennan sem Nolan nær að mynda er frábær. Kvikmyndatakan og tónlistin er líka til fyrirmyndar í myndinni, þó ég muni seint hugsa um Batman-þemuna úr þessari mynd í staðinn fyrir þemunni sem var í Burton-Batman myndunum.
Leikurinn er til fyrirmyndar alls staðar. Gary Oldman, Morgan Freeman og Michael Caine eignuðu sér algjörlega sína karaktera í þessari mynd, þrátt fyrir að Freeman sé fremur lítið í myndinni samanborið við Batman Begins. Maggie Gyllenhaal kemur með skárri Rachel heldur en Katie Holmes, en því miður finnst mér þessi karakter ekki vera neitt áhugaverður. Hún er miðjan í hálfgerðum ástarþríhyrningi og þar sem mér finnst hún ekki vera áhugaverð þá virkar þetta ekki fyrir mig. Aaron Eckhart er frábær sem Harvey Dent, miklu betri en Tommy Lee Jones var í Batman Forever.
Ég hef aldrei verið mikill aðdáðandi Christian Bale (þó hann var æðislega í The Fighter) en hann er mjög traustur hér. Hann er trúverðugur sem Bruce og maður finnur fyrir því sem hann lendir í gegnum myndina sem Batman. En því miður er helvítans röddin hans sem Batman mjög pirrandi. Ég veit að hann gerir þetta til að fela röddina sína, en hann ýkir þetta of mikið. Michael Keaton (úr Burton-myndunum) og Kevin Conroy (úr þáttunum frá 10. áratugnum) gerðu þetta ekki eins mikið og það virkaði hjá þeim. Heath Ledger er að sjálfsögðu senuþjófur myndanna og eignar sér nær öll atriðin sem hann er í. Hann átti vel skilið Óskarinn. Mér finnst samt þessi Joker ekki vera betri en aðrar útgáfur af honum, flestar af þeim sem ég hef séð eru svipað góðar; fyndnar og ógnandi.
Handritið er einkennilega vel skrifað fyrir ofurhetjumynd og margar góðar pælingar koma fram í myndinni. Það hefði samt mátt klippa smávegis af handritinu hér og þar. T.d. fannst mér nokkrar ræður sem Alfred (Michael Caine) kom með vera bæði langar og hafa lítinn tilgang.
Myndin er samt ekki fullkomlega laus af göllum. Með þeim göllum sem ég hef nefnt fyrir ofan þá eru aðalgalli myndarinnar hversu auðveldlega Joker getur gert allt sem hann gerir í myndinni. Hann getur auðveldlega sloppið af fangelsi og sett sprengjur í tvær ferjur án þess að nokkur taki eftir þeim. Ég veit að myndin á sýna hversu spillt Gotham er, en þetta var of mikið.
Þrátt fyrir nokkra galla er myndin frábær og að mínu mati með bestu myndum sem komu út árið 2008 og með bestu myndum sem ég hef séð sem eru byggðar á myndasögum.
9/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei