Verður Jack Reacher 2 að veruleika?

Þegar á allt er litið er kannski ekki sanngjarnt að segja að mynd Tom Cruise, Jack Reacher, hafi klikkað í miðasölunni í Bandaríkjunum. Staðreyndin er að myndin var frumsýnd skömmu eftir fjöldamorðin í Newton í Connecticut í desember, en í byrjun myndarinnar er einmitt leyniskytta sem drepur átta manns með köldu blóði. Í ljósi þess er ekki skrýtið að myndin hafi hlotið minni aðsókn en ella.

Myndin fékk ágætar viðtökur gagnrýnenda, en náði þrátt fyrir það aðeins að þéna 15 milljónir Bandaríkjadala á frumsýningarhelginni, og lenti í öðru sæti aðsóknarlistans á eftir Hobbitanum, sem var á sinni annarri viku á lista.

Þegar hætt var sýningum á myndinni í bíó í Bandaríkjunum voru tekjur hennar komnar upp í 79 milljónir dala þar í landi, sem þykir ekki ásættanlegt miðað við að framleiðsla myndarinnar kostaði 60 milljónir dala.

Utan Bandaríkjanna hefur myndin hinsvegar gengið betur, og þénað 125 milljónir dala og er  þar með komin upp í 200 milljónir dala í heildartekjur. Það þýðir að Jack Reacher er nítjánda Tom Cruise myndin til að fara yfir 200 milljónir dala í tekjur.

Og þetta gæti þýtt eitt – að gerð verði framhaldsmynd!

Deadline vefsíðan segir að þetta standi einmitt til í ljósi ofangreinds, þó að enn sé aðeins um þreifingar að ræða. Þetta eru talsverð umskipti frá því um miðjan janúar þegar menn nánast útilokuðu að gert yrði framhald.

Það má telja víst að Tom Cruise muni þá mæta aftur í titilhlutverkinu.

Eru ekki allir til í aðra Jack Reacher? Þá er bara spurning hvaða bók Lee Child verður valin til að kvikmynda.