Van Damme í Expendables 2 með einu skilyrði

Það hefur ekki vantað orðrómana um leikaravalið í Expendables 2, en framhaldið af stórsmellinum frá seinasta ári er nú í vinnslu. Sylvester Stallone leitar nú að fleiri hörkutólum til að fá til liðs við sig og hafa nöfnum á borð við Steven Seagal, Chuck Norris, Kurt Russell og Jean-Claude Van Damme verið kastað fram.

Í viðtali segir leikstjórinn Sheldon Lettich að búast megi við að Van Damme muni birtast í The Expendables 2, en að leikarinn hafi þó sett Sylvester Stallone skilyrði. Þannig er mál með vexti að Van Damme muni bara leika í myndinni ef Steven Seagal geri það ekki. Talið er víst að Seagal muni ekki birtast í myndinni vegna slæms sambands við einn framleiðanda hennar, og ætti þá að vera nokkuð víst að við fáum að sjá Jean-Claude Van Damme í topp formi á næstunni.

Hvað varðar leikaravalið hefur Stallone sagst vonast til að fá Bruce Willis og Arnold Schwarzenegger í stærri hlutverk, sem og að hann sé með hlutverk handa góðvini sínum og sjónvarpsstjörnunni Ryan Seacrest.

– Bjarki Dagur