Upprisa Krists enn í vinnslu hjá Gibson

Lengi hefur verið talið að Gibson myndi gera framhald að kvikmyndinni The Passion of the Christ. Þeir Mel Gibson og handritshöfundurinn Randall Wallace (Braveheart, We Were Soldiers) hafa verið með myndina á teikniborðinu í töluverðan tíma og er hún sögð vera epísk og rándýr í framleiðslukostnaði, en einnig herma heimildir að staldrað verður við í helvíti.

Án þess að spilla of mikið söguþræði bókarinnar fyrir lesendum fjallar framhaldssagan í grunninn um upprisu Jesús og tekur hún upp þráðinn þremur dögum eftir að hann lést á krossinum á Golgatahæð.

The Passion of the Christ, sem kom út árið 2004, þénaði 612 milljónir dala en kostaði einungis 30 milljónir í framleiðslu. Nú staðfesta heimildir að framhaldið sé enn á planinu og mun bera nafnið The Passion of the Christ: Resurrection.

Staða framleiðslunnar hefur þó verið heldur óljós á síðustu misserum, ekki síður eftir að andúð í garð Gibsons gaus upp nýverið eftir að breski miðillinn Sunday Times birti viðtal við leikkonuna Winonu Ryder. Í viðtalinu ræddi leikkonan bakgrunn sinn, en hún heitir réttu nafni Winona Laura Horowitz og er gyðingur. Árið 2010 hafði Ryder áður vakið athygli fyrir sömu frásögn af Gibson, þá í viðtali við tímaritið GQ og sagði þar meðal annars: „Hann er hommafælinn kynþáttahatari, en á þeim tíma trúði enginn mér.“ Þessi umræddu kynni áttu sér stað í veislu í Hollywood árið 1995 og sagði leikkonan það vera augljóst að Gibson hafi verið drukkinn.

„Ég var með vini mínum, sem er samkynhneigður og Mel segir við hann: „Bíddu, á ég eftir að fá AIDS?“ Síðan var eitthvað talað um gyðinga og hann sagði: „Þú ert ekki ein af þeim sem forðast ofninn, er það nokkuð?““ segir Ryder en orð Gibsons [„oven dodger“] vísa í gasklefa.

Bandaríski leikarinn Jim Caviezel, sem fór svo eftirminnilega með hlutverk Krists í fyrri myndinni, staðfesti í viðtali við fréttaveituna Breitbart News að Gibson muni leikstýra kvikmyndinni og hefur handritið verið í sífelldri þróun.

„Mel sendi mér nýlega þriðja uppkastið,“ sagði Caviezel og sparaði ekki stóru orðin frekar en fyrri daginn.

„Þetta verður stærsta mynd kvikmyndasögunnar.“