Tímafrekt áhorf

Margir tölvuleikir á netinu leyfa notendum sínum að horfa á leikinn án þess að taka sjálfir þátt í honum, í svokölluðu áhorfenda viðmóti ( spectator mode ).

Spilarar sem spila leikinn vinsæla World of Warcraft hafa lengi kvartað yfir því að ekki sé boðið upp á þetta í leiknum, og nú um helgina brást fyrirtækið sem framleiðir leikinn, Blizzard, við þessum röddum.

„Við höfum því miður ekki neina áætlun sem stendur um að bæta þessari virkni við, við vitum að einhverjir spilarar hafa verið að biðja um þetta,“ segir í skilaboðum frá þróunardeild leiksins, á spjallborði hans.

Í skilaboðunum segir að svona breyting væri mjög tímafrek í þróun, og þróunarteymið yrði að vera viss um að nógu margir spilarar nýttu sér þetta, áður en farið yrði út í þetta.