Svínastían slær í gegn

Græna Ljósið hefur nýlega tilkynnt að sænska myndin Svínastían (Sprängaren), eftir Pernillu August með Noomi Rapace (Stieg Larsson-þríleikurinn) í aðalhlutverkinu, verði sýnd áfram í nokkra daga. Þetta var opnunarmynd Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs og sló myndin alveg í gegn nú um helgina í Bíó Paradís.

Leikstýran, August, sótti Ísland heim og opnaði kvikmyndaveisluna á miðvikudaginn og í kjölfarið fékk myndin langmestu aðsóknina af myndunum og frábærar viðtökur hjá gagnrýnendum.

Þær fimm myndir sem voru sýndar á þessari hátíð voru Sannleikurinn um karla (Danmörk), Góði sonurinn (Finnland), Brim (Ísland), Osló 31. ágúst (Noregur) og Svínastían. Á næstu vikum verða myndirnar fimm sýndar á sambærilegum viðburðum í hinum fimm norrænu höfuðborgunum; Kaupmannahöfn, Helsinki, Osló og Stokkhólmi. Í október verður tilkynnt hver sigurvegarinn er og verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Kaupmannahöfn 2. nóvember.

Svínastían verður að minnsta kosti sýnd áfram út vikuna, og veltur á aðsókn hvort það framlengist síðar.