Vélmenni með flutningaskip í eftirdragi – Ný Pacific Rim stikla

Vísindatryllirinn Pacific Rim, frá leikstjóranum Guillermo del Toro verður sýnd í sumar og má búast við hasar í sinni stærstu mynd.

Á nýliðinni Wondercon hátíð fengu gestir að bera vélmenninn augum í sérstöku myndbroti sem var gerð fyrir hátíðina. Nú hefur það myndbrot verið sett á netið svo allir geti notið þess að sjá risavélmenni á stærð við skýjakljúf slást með flutningaskip að vopni.

Í Pacific Rim er mannkynið í hættu eftir að risastórar verur birtast úr undirdjúpunum, eftir að hafa komið til jarðar í gegnum hlið inn í aðra vídd. Þessi skrímsli sitja um stórborgir jarðar og rústa byggingum og vilja gereyða mannkyninu. Nokkur ríki snúast til varnar og ákveða að byggja í sameiningu risastór vélmenni sem kölluð eru Jaegers, sem stjórnað er af fólki sem hefur tengt heila sinn við vélmennin.

Pacific Rim er væntanleg í kvikmyndahús á Íslandi þann 17. júlí næstkomandi.