Nýjar upplýsingar komnar um Zoolander 2

Það eru liðin þrjú ár síðan að Ben Stiller staðfesti að hann væri að vinna að framhaldi af gamanmyndinni Zoolander. Síðan þá hafa upplýsingar fyrir myndina komið í hófi og hefur það ekkert breyst nú. MTV náði tali af Owen Wilson fyrr í vikunni við blaðamannafund varðandi nýjustu gamanmynd hans, The Big Year, og eftir smá smjaður byrjaði hann á því að segja: „Hansel, hann hefur átt í erfiðleikum.“ Síðan sleppti hann þessari bombu: „Það hefur orðið slys sem skildi hann eftir afmyndaðan, hugsið Vanilla Sky.“

Hvernig slys það var eða hvernig það gerðist vildi Wilson ekki gefa upp, en þetta styður svo sannarlega við þær upplýsingar sem Ben Stiller gaf upp um söguþráð myndarinnar í byrjun ársins: Myndin mun gerast tíu árum eftir þá fyrstu og skipta þeir Derek Zoolander og Hansel ekki lengur máli. Hún mun gerast aðallega í Evrópu og hefur Stiller staðfest að Will Ferrell og karakter hans, Mugatu, verði stór hluti af sögunni í framhaldinu. Stiller og Justin Theroux, sem skrifaði m.a. Tropic Thunder með honum, eru að skrifa handritið og eru líkur á að Theroux fái að leikstýra myndinni.

Zoolander var ekki fullkomin, en hún hefur þróast í gegnum árin sem hálgerð költ-mynd og það er hægt að skemmta sér yfir henni hvenær sem er. Þannig það að það fer að styttast í framhaldið er óneitanlega spennandi og hjálpa þessar nýju upplýsingar aðeins við að auka spennuna. Það er líka gaman að vita að þrátt fyrir slysið heldur Hansel ennþá sjálfsímyndinni hreinni, eins og Owen sagði: „Hann mun enn hafa þennan Hansel sjarma.“