Sungið með hjartanu

Þessi grein birtist fyrst í októberhefti Mynda mánaðarins.

One Chance heitir myndin sem segir sögu Pauls Potts, en hún er gerð af leikstjóranum David Frankel sem á meðal annars að baki myndirnar The Devil Wears Prada, Marley & Me og Hope Springs.

James Corden in One Chance, a film based on the story of Britain's Got Talent winner Paul PottsMeð hlutverk Pauls fer breski leikarinn James Corden, en í öðrum veigamiklum hlutverkum eru m.a. þau Julie Walters, Mackenzie Crook og Colm Meaney. Paul Potts vann hjá símasölukeðjunni Carphones Warehouse en hafði lengi átt sér þann draum að geta séð sér farborða með óperusöng. Paul hafði um nokkurt skeið fengið útrás fyrir söngþörfina með því að taka þátt í óperuuppfærslum áhugahópa og það var ekki síst vegna hvatningar vina sinna þar sem hann ákvað að slá til og taka þátt í fyrstu Britain Got Talent-hæfileikakeppninni sem haldin var árið 2007. Það gleymir því enginn sem sá Paul koma fram í áheyrnarprufum þáttarins 17. mars 2007. Engum af þeim 2.000 áhorfendum sem voru í salnum ásamt dómurunum Simon Cowell, Amöndu Holden og Piers Morgan datt í hug að þessi uppburðarlitli maður hefði slíka söngrödd sem raun var og þegar hann lauk við flutning sinn á Nessum Dorma stóðu allir í salnum á fætur og um leið var ljóst að stjarna var fædd.

Í One Chance er saga Pauls sögð, bæði áður en hann sló í gegn í áheyrnarprufunni og eftir það, en óhætt er að segja að líf hans hafi breyst í sannkallað ævintýri eftir hæfileikakeppnina. Hann hefur gefið út nokkrar metsöluplötur og ferðast um allan heim, þar á meðal til Íslands þar sem hann söng á jólatónleikum í fyrra. One Chance verður frumsýnd í nóvember, en þess má geta að myndbandið frá fyrstu áheyrnarprufu hans er á meðal vinsælustu myndskeiða á You Tube með yfir 115 milljónir áhorfa.