Stripparastikla!

Ég veit ekki með ykkur en ég held að ég eigi eftir að verða Steven Soderbergh óendanlega þakklát í sumar þegar ég sé myndina hans Magic Mike. Sá maður er hér að smala saman nokkrum af heitustu leikurunum í Hollywood í dag og láta þá strippa fyrir okkur á hvíta tjaldinu.

Við erum að tala um eðalkroppa eins og Matthew McConaughey, Channing Tatum, Alex Pettyfer (I Am Number Four), Joe Manganiello (True Blood) og síðast en ekki síst Matt Bomer (White Collar). Söguþráðurinn er á þá leið að titilpersónan, vinsæli stripparinn Mike, (Tatum) tekur upp á arma sína ungan og upprennandi dreng kallaður The Kid (Pettyfer) sem vill verða góður í að afklæðast fyrir peninga. Þetta á víst að vera byggt á fortíð Tatum en hann var duglegur í strippinu áður en hann sló í gegn sem leikari. Meira þurfum við ekki að vita er það?

Kíkið á stikluna og látið vita hvað ykkur finnst. Ég myndi vilja sjá meira af Matt Bomer.