Neeson bindur blóðuga hnúta í Taken 2


Eftir að hafa séð eitursvala plakatið fyrir Taken 2 hefur maður fundið fyrir hasartengdum blóðþorsta sem einungis Liam Neeson í hlutverki stálpabbans Bryan Mills getur svalað, enda sá allra svalasti. Nú loks hefur fyrsta ‘alþjóðlega’ stiklan fyrir myndina verið opinberuð á netinu. Ég ætla ekki að tefja frekar en að biðja ykkur um að smella á stikluna… núna!

Já, já, JÁ! Ef þessi stikla gerir ekkert fyrir ykkur þá eruð þið á röngum stað. Seinni myndin, eins og stiklan sýnir, gengur út á hefndarþorsta þeirra nánustu sem Bryan gróf sig í gegnum í síðustu ræmu til að bjarga dóttir sinni. Nú lendir hann og öll fjölskylda hans í kröppum dansi þegar faðir eins hrottans úr fyrstu myndinni rænir bæði dóttur hans og eiginkonu. Finnst einhverjum öðrum eins og að sú seinni líti út fyrir að vera harðsoðnari hasarmynd en sú fyrri?

Myndin er skrifuð af þeim Robert Mark Kamen og Luc Besson sem skrifaði einnig þá fyrstu. Leikstjórinn að þessu sinni er Oliver Megaton sem færði okkur m.a. Transporter 3 og Columbiana á síðasta ári (sem Besson skrifaði einnig).

Hvernig lýst lesendum á myndina? Fær hún bringuhárin til að vaxa eða er þetta sama gamla sagan? Hvernig fannst ykkur fyrsta ræman?