Neeson örvæntingarfullur í bíl með sprengju

Í nýjasta spennutrylli sínum Retribution er hinn 71 árs gamli Liam Neeson mættur enn á ný í hlutverki hins gallharða nagla sem við höfum séð hann í í ótal myndum síðustu ár. En kannski stendur þessi erkitöffari nú í fyrsta skipti andspænis öflum sem hann ræður ekki við! Það er kallað að vera pabbi á 21. öldinni, eins og Variety kvikmyndaritið orðar það í umfjöllun um myndina sem kom í bíó um helgina hér á Íslandi.

Eins og Variety bendir á þá er Neeson framan af myndinni ekki jafn naglharður og við þekkjum hann úr spennutryllum síðustu ára, því í Retribution neyðist hann til að vera viðkvæmur og sýna á sér mjúka hlið. Þegar sprengjumaðurinn skipar Matt að hringja í eiginkonu sína Heather sem Embeth Davidtz leikur, svo hún geti farið í bankann og opnað leynihólf, þá kemst hann að því að hún er að heimsækja skilnaðarlögfræðing. Þvílíkur dagur fyrir okkar mann! 

Retribution (2023)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn5.3
Rotten tomatoes einkunn 29%

Matt Turner er bandarískur athafnamaður búsettur í Berlín í Þýskalandi. Dag einn lendir hann í kapphlaupi við tímann við að bjarga fjölskyldu sinni og eigin lífi. Þegar hann er að aka börnum sínum í skólanum er hringt í hann og dularfull rödd varar hann við sprengiefni í ...

Býr í flottu húsi

Í myndinni leikur Neeson bankamanninn Matt Turner sem býr með konu og tveimur börnum í stórbrotnu glerhýsi í Berlín í Þýskalandi. Neeson hefur oft leikið feður sem er mjög annt um börnin sín – eins og menn þekkja til dæmis úr Taken myndunum, sem voru upphafið á ótal hefndartryllum Neesons sem fylgdu í kjölfarið.

En í Retribution fær Matt enga virðingu frá unglingunum sínum Emily, sem Lilly Aspell leikur, og hinum oflætisfulla unglingssyni Zach, sem Jack Champion leikur. Ástæðan er eins og sagt er frá í kvikmyndinni, að menningin í kringum hetjuna okkar hefur sogað frá honum allt vald sem hann hafði haft sem faðir.

En morgun einn fer hann með börnin í skóla og ræður svo illa við þau að hann þarf að lokka Zack inn í bílinn með fortölum. Um er að ræða rándýran Mercedes Benz jeppling sem Matt hefur auðveldlega efni á. Bílinn, rétt eins og húsið, eru vel úr garði gerð, traustir íverustaðir sem vernda fjölskylduna. En þó ekki í dag. Um leið og Turner ekur af stað heyrir hann í farsíma undir sætinu og hringitónninn er lagið Row Row Row Your Boat.  Hann svarar símanum og á hinum enda línunnar er ein af þessu rafrænu óhuggulegu röddum sem maður hefur svo oft heyrt í bíómyndunum.

Slæmar fréttir

Röddin hefur slæmar fréttir að færa. Það er sprengja í bílnum, nánar tiltekið undir ökumannssætinu. Ef Matt fer úr bílnum mun hann springa. Ef börnin fara út, eða ef hann gerir eitthvað annað en röddin skipar honum að gera, mun bíllinn springa. ( sprengjumaðurinn hefur ræsibúnað og getur greinilega séð allt sem Turner gerir og hvert bíllinn fer).

En hvað vill sprengjumaðurinn? Hann hljómar eins og klikkaði snillingurinn Jigsaw úr Saw, og ætlar greinilega að láta Matt gjalda fyrir syndir sínar.

Við sjáum bankamenn eins og Matt springa í loft upp í sjónvarpsfréttunum þannig að við vitum að manninum er alvara.

Hann skipar Matt að aka áfram og það verður fljótt ljóst að öll myndin mun gerast í bílnum. Eitthvað fær mann til að hugsa hvort Retribution sé Speed um borð í Benz jepplingi.

Speed (1994)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7.3
Rotten tomatoes einkunn 95%

Áætlun hryðjuverkamanns um að sprengja lyftu í loft upp klikkar, þannig að hann ákveður í staðinn að koma sprengju fyrir í strætisvagni í Los Angeles. Sprengjan er þannig gerð að þegar hún hefur verið virkjuð, þá verður strætóinn að halda sig á 50 mílna hraða á ...

Endurgerð spænskrar myndar

Retribution sem er endurgerð spænska spennutryllisins El Desconocido frá 2015 spyr mann spurninga eins og Hvað vill sprengjumaðurinn?  Hvað gerði Matt til að verðskulda þetta? Og hvernig sleppur hann? 

Variety segir að Neeson sé það góður leikari, ólíkt mörgum öðrum hasarmyndastjörnum, að hann nær að túlka vel örvæntingu Turners. Hann reynir ekki að berjast gegn sprengjumanninum – heldur reynir að spila með. Hann er í símanum að tala við Heather, samstarfsmenn og Europol fulltrúa. En þegar hann stendur augliti til auglitis við vin sinn og félaga Anders, sem Matthew Modine leikur, og er neyddur til að reyna að drepa hann, þá gefur sig eitthvað í okkar manni.  Hingað til í myndinni hefur persónan verið siðfáguð en nú sleppur dýrið út. Og það er einmitt sú útgáfa af Neeson sem við erum komin til að sjá í bíó.

Leikstjóri: Nimród Antal.

Handritshöfundur: Alberto Marini, Christopher Salmanpour.

Leikarar: Liam Neeson, Noma Dumezweni, Lilly Aspell, Jack Champion, Matthew Modine, Embeth Davidtz.

-Um er að ræða þriðja samstarf Neeson og framleiðandanna Andrew Rona og Alex Heineman ( Þeir unnu saman að Non-Stop árið 2014 og The Commuter árið 2018).

-Jaume Collet-Serra, sem leikstýrði Neeson í báðum þessum myndum, auk Unknown og Run All Night, færir sig nú yfir í stól framleiðanda.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan: