STÓRATBURÐUR Í VÆNDUM: KVIKMYNDAVERÐLAUN MYNDA MÁNAÐARINS OG KVIKMYNDIR.IS

Nú er að líða að lokum eins farsælasta árs Mynda mánaðarins frá upphafi göngu þess. Tæpum 17 árum eftir útgáfu fyrsta tölublaðsins stendur tímaritið keikt á toppi afþreyingarita á Íslandi. Í september kom út 200. tölublaðið og var haldið upp á það með pompi og prakt og sérstöku 148 síðna afmælisblaði sem var troðfullt af efni. Með útgáfu þessa 104 síðna desemberblaðs er útgáfa ársins 2010 stærri en nokkru sinni fyrr. Samanlögð stærð blaðanna 12 í ár er hvorki meira né minna en 1.132 síður, sem er aukning um næstum 160 síður frá árinu í fyrra og meira en nokkru sinni fyrr. Boðið var upp á margar nýjungar í ár, til að mynda kynninga á tölvuleikjum hvers mánaðar, og mun það halda áfram. Við fórum meira að segja til San Diego í sumar til að bera Íslendingum fréttir af Comic-Con, fyrstir íslenskra fjölmiðla.

Auk þess fórum við snemma árs í samstarf við einn besta afþreyingarvef landsins, Kvikmyndir.is, og hefur það samstarf gengið mjög vel og er vonandi rétt að byrja. Til að mynda unnum við saman að kosningu um 100 uppáhalds myndir Íslendinga og voru niðurstöðurnar birtar í áðurnefndu septemberblaði.

Kvikmyndaárið sjálft hefur auk þess verið mjög viðburðaríkt. Fjöldi góðra mynda sem okkur býðst, bæði í bíóum og á leigunum, hefur sem betur fer ekkert minnkað og hefur tilkoma tveggja nýrra bíóhúsa eingöngu aukið fjölbreytni í kvikmyndaúrvali enn frekar.

Í tilefni af þessu merkilega ári, sem nú líður brátt undir lok, höfum við á Myndum mánaðarins og Kvikmyndir.is ákveðið að halda stærsta viðburð sem við höfum staðið að til þessa: Verðlaunahátíð þar sem við munum fá ykkur, lesendur góðir, til að velja það besta frá árinu 2010, og halda glæsilegan viðburð eftir áramót þar sem þessi verðlaun verða afhent. Að sjálfsögðu verður Kvikmyndir.is-vefurinn vettvangur kosningarinnar, og hvetjum við ykkur því til að fylgjast vel með á Kvikmyndir.is næstu vikur, þegar nákvæm útfærsla á þessu öllu verður kynnt og kosningin fer af stað.
Við viljum að sjálfsögðu halda áfram í góð tengsl við lesendur okkar og hvetjum við ykkur að senda póst á ritstjórann, erlingur@kvikmyndir.is , ef þið lumið á góðum hugmyndum fyrir atburðinn eða skemmtilegum flokkum til að kjósa um.

-Erlingur Grétar