Silverstone til Lobster leikstjóra

picture-of-alicia-silverstone-in-vamps-large-pictureTökur eru hafnar í Cincinnati á nýjustu mynd The Lobster leikstjórans Yorgos Lanthimos, The Killing Of  A Sacred Deer.

Um er að ræða sálfræðidrama, en í myndinni koma þeir saman á ný leikstjórinn og The Lobster stjarnan Colin Farrell. Nicole Kidman er einnig í stóru hlutverki.

Deadline segir frá því í dag að Clueless stjarnan kanadíska Alicia Silverstone hafi bæst í leikhópinn auk þeirra Raffey Cassidy ( Tomorrowland ) og Bill Camp (Jason Bourne, 12 Years A Slave).

Í myndinni leikur Farrell hlutverk Steven, heillandi skurðlæknis sem neyðist til að færa gríðarlega fórn eftir að líf hans byrjar að hrynja, þegar hegðun unglingspilts, sem hann hefur tekið undir sinn verndarvæng, verður ógnandi.

Kidman leikur eiginkonu Farrell. Silverstone leikur móður piltsins.

The Lobster vann dómnefndarverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2015, og þénaði 9 milljónir dala í bíó í Bandaríkjunum. Mynd Lanthimos þar á undan, Dogtooth, vann Un Certain Regard verðlaunin í Cannes árið 2009.  Síðar var hún tilnefnd sem besta erlenda mynd á Óskarsverðlaununum.