Sex kunnu að synda á Íslandi árið 1820

Jón Karl Helgason leikstjóri heimildarmyndarinnar Sundið, sem frumsýnd verður þann 18. Þessa mánaðar í Bíó Paradís, segir að árið 1820 hafi aðeins sex Íslendingar kunnað að synda, en myndin segir sögu sunds á Íslandi allt frá Landnámi og fram til okkar daga.

Jón Karl segir að vinna við myndina hafi hafist árið 2004 og hann hafi farið á þeim tíma sem liðinn er síðan þá, fimm sinnum til Dover á Englandi, en þar leggja menn í hann þegar þeir ætla að þreyta sund yfir Ermasundið. Ferðirnar voru farnar til að fylgjast með þremur Íslendingum sem hafa reynt sig við þetta sund á þessu tímabili. „Þegar ég var úti á sjó þá fór maður að hugsa um hvernig var með sundið í gamla daga. Landnámsmennirnir kunnu að synda, en svo dó þetta út. Árið 1820 kunnu einungis sex Íslendingar að synda,“ segir Jón Karl.

Mynd tekin af facebook síðu myndarinnar.

5.354 Íslendingar drukknuðu á 110 árum

Hann segir að frá árinu 1880 til 1990 hafi 5.354 Íslendingar drukknað, og margir vegna þess að þeir kunnu ekki að synda. „Þegar ég komst að þessu þá ákvað ég að sviðsetja þessa sögu. Saga sundsins er ekkert skráð. Landnámsmenn kunnu að synda, en svo hættu þeir að kenna börnum sínum að synda, og þessvegna dó þetta út.

Jón segir að Fjölnismenn hafi gefið út líklega fyrsta íþróttabæklinginn árið 1843 sem Jónas Hallgrímsson þýddi úr dönsku.

„Þarna fengu menn bækling inn um dyrnar og gátu lært að synda með því að lesa hann. En aðstæður voru ekki góðar, sjórinn kaldur osfrv. Það er enn fólk á lífi sem lærði að synda í sjó. Herdís Þorvaldsdóttir leikkona lærði til að mynda að synda í sjó og Ásgeiri Ásgeirsson síðar forseti kenndi börnum í Vestmannaeyjum að synda í sjó,“ sagði Jón Karl Helgason í samtali við kvikmyndir.is

Eitt af sviðsettum sundum í myndinni: Helgusund árið 898. Helga bjargar sér og börnum sínum undan óvinum.