Prince orðin tekjuhæst leikjamynda

Ævintýramyndin Prince of Persia, með Gísla Erni Garðarssyni í hlutverki eins af illmennunum, og Jake Gyllenhal í aðalhlutverkinu, sem gerð er eftir samnefndum tölvuleik, er nú orðin tekjuhæsta bíómynd allra tíma, af þeim sem gerðar eru eftir tölvuleik.

Myndin hefur nú rakað inn 300 milljónum Bandaríkjadala um heim allan í aðgangseyri. Það þýðir þó ekki að framleiðendur baði sig nú í seðlum, því framleiðslukostnaður var himinhár, og nam um það bil sömu upphæð, sem þýðir að menn eru nú komnir á núllið.

En hvaða tölvuleikjamynd velti Prinsinn úr sessi. Jú, það var myndin Lara Croft : Tomb Raider, með sjálfri Angelinu Jolie í aðahlutverkinu, en sú mynd skaffaði 274 milljónir dala í kassann.

Ætli þessar tekjur nægji til að menn geri framhaldsmynd af Prince of Persia?