Persónur úr Star Wars fá sínar eigin myndir

Walt Disney Co. er með kvikmyndir í vinnslu sem munu byggjast á einstökum persónum úr Star Wars seríunni, að því er forstjóri fyrirtækisins Robert Iger lét hafa eftir sér í gær í viðtali á CNBC sjónvarpsstöðinni.

Fá þessir tveir sérstakar myndir um sig?

Þessar myndir verða til viðbótar Star Wars framhaldsmyndunum þremur sem fyrirtækið er með í vinnslu og mun frumsýna annað hvert ár frá og með árinu 2015. Það er J.J. Abrams sem mun leikstýra fyrstu framhaldsmyndinni, eða Star Wars 7, eftir handriti Michael Arndt.

Handritshöfundarnir Lawrence Kasdan og Simon Kinberg, sem eru ráðgjafar við handritaskrifin fyrir Star Wars framhaldsmyndirnar, eru nú þegar byrjaðir á myndunum sem byggðar verða á einstökum persónum myndanna.

Iger vildi ekki segja meira um hvaða persónur þetta væru, né heldur vildi hann segja neitt um hvenær stefnt væri að frumsýningu þessara mynda.

Lawrance Kasdan skrifaði handritið að Star Wars: Episode V – The Empire Strikes Back.

Kinberg skrifaði Sherlock Holmes frá árinu 2009, og framleiddi X-Men: First Class.

 

Stikk: