Persónuþjófur stelur efsta sætinu – aftur

Gamanmyndin Identity Thief hrifsaði toppsæti bandaríska aðsóknarlistans nú um helgina og þénaði 14 milljónir Bandaríkjadala. Myndin var frumsýnd fyrir tveimur vikum og fór þá beint á toppinn, en þurfti að gefa eftir toppsætið í síðustu viku til A Good Day to Die Hard.

Ný mynd Dwayne Johnson, glæpadramað Snitch, var önnur vinsælasta mynd helgarinnar með 13 milljónir dala í tekjur og í þriðja sæti lenti teiknimyndin Escape From Planet Earth, með 11 milljónir dala í tekjur. Safe Heaven er í fjórða sætinu með 10,6 milljónir dala í tekjur og svo í fimmta sæti, hrapar úr því fyrsta frá því í síðustu viku, er nýjasta Die Hard myndin, A Good Day to Die Hard með 10 milljónir dala í tekjur.

Dular-spennutryllirinn Dark Skies náði sjötta sætinu, ný á lista og Óskarskandídatinn Silver Linings Playbook stökk upp í sjöunda sætið með 6 milljónir dala í tekjur. Warm Bodies situr í áttunda sætinu, með 4,7 milljónir dala í helgartekjur.

Side Effects náði níunda sætinu og í tíunda sætinu situr Beautiful Creatures, sem dettur niður úr sjötta sætinu.