Stundum er svo mikið að frétta úr afþreyingarheiminum að það er gjörsamlega ómögulegt að troða heilu fréttunum fyrir. Þess vegna hjálpar það einstaka sinnum að segja frá því nýjasta í örfréttum. Kíkjum á hvað er nýtt:
Íslenska spennudramað Svartur á leik hefur verið færð um tvo mánuði. Upphaflega átti að frumsýna hana núna í janúar en við fáum hana víst ekki fyrr en í mars.
Unglingabólan Breaking Dawn: Part 1 hélt enn toppsæti bandaríska aðsóknarlista helgarinnar, þriðju helgina í röð, sem eru ekkert rosalega spennandi fréttir fyrir aðdáendur Prúðuleikaranna.
Einn gagnrýnandi í bandaríkjunum, að nafni David Denby, sá The Girl with the Dragon Tattoo fyrir stuttu og ákvað að gefa skít í umfjöllunarbannið á henni. Dómurinn er mest megnis jákvæður en einnig pínu blandaður. Hann hrósar þó Rooney Mara einstaklega mikið og segir að það sé mjög erfitt að taka augun af henni í Lisbeth Salander-hlutverkinu. Jei?
Ónefndur íslenskur gagnrýnandi á Íslandi sá nýjustu mynd Baltasars, Contraband, fyrir stuttu og var afskaplega hrifinn af uppfærslunni.
Smellið hingað til að sjá plakatið fyrir myndina Cabin in the Woods. Sú mynd hefur víst verið lengi tilbúin (og átti fyrst að koma út snemma 2010) og bíður enn eftir dreifingu. Hún er framleidd og meðskrifuð af Joss Whedon og hefur Chris Hemsworth í einu aðalhlutverkinu. Ætti varla að vera erfitt að selja myndina núna. Myndin er víst væntanleg á næsta ári.
Ofurmennið í Hollywood, Steven Spielberg, segist telja líklegt að Michael Bay leikstýri fjórðu Transformers-myndinni.
Spielberg sagði áfram í sama viðtali að fimmta Indiana Jones-myndin væri á leiðinni ef George Lucas samþykkir að gera hana. Enn einu sinni bætti hann kommentum við um álit sitt á fjórðu myndinni:
„Ég er mjög stoltur af þessari mynd. Ég dýrkaði það að fá Marion aftur. Ég dýrka það að Indy eigi núna son. Þetta er fjölskyldudrifin hasarmynd og það höfðar mikið til mín. Ég hef alltaf sagt sögurnar á filmu eins og George (Lucas) vill hafa þær. Stærstu áhrif mín á alla Indy-seríuna voru þau að bæta föður Indy við þriðju myndina. Það var mín hugmynd að fá Sean Connery. Við George erum bestu vinir og ég hlýði honum hiklaust. Ég reyni að gera hann stoltan.“
Líkur eru á því að (hin) nýjasta mynd Baltasars Kormáks, Djúpið, frestist um einhvern tíma. Upphaflega átti hún að koma út núna um áramótin.