Rango er einhver óvenjulegasta "barnamynd" sem ég hef séð lengi. Þetta er tvímælalaust mynd sem öll fjölskyldan ætti að geta horft á en persónulega tel ég sterkari líkur á því að kvikmyndaunnendur fái aðeins meira út úr henni. Myndin tekur söguþráðinn úr Chinatown en spilast út eins og klassískur vestri af gamla skólanum (aðdáendur þeirra sjá að titillinn er augljós tilvísun í myndina Django). Þar af leiðandi er hún ekki eins hröð, litrík og ærslafull og hefðbundnar fjölskyldumyndir. Í staðinn er keyrslan hæg (í augum barna a.m.k.), litadýrð takmörkuð og almennt andrúmsloftið skítugt og hrátt. Eldri hópar eiga sérstaklega eftir að njóta þess mikið hvað handritið er snjallt - þótt klisjukennt sé - og stútfullt af tilvísunum í eitthvað sem krakkar þekkja engan veginn til. Það er t.a.m. eitt meiriháttar fyndið skot á tiltekna Johnny Depp költ-mynd (hint: Hún gerist að hluta til í eyðimörk) sem er án efa besti brandarinn í allri myndinni. Ef þið eruð ekki búin að fatta hvaða mynd það er nú þegar þá fer þetta líklegast framhjá ykkur.
Annars er tölvuvinnan langstærsti kosturinn hér og hún er algerlega aðgangseyrisins virði ein og sér. Myndina VERÐUR að sjá á risastórum skjá í óaðfinnanlegri upplausn því ég get umhugsunarlaust fullyrt að þetta sé einhver flottasta teiknimynd sem ég hef séð, á pari með uglumynd Zacks Snyder. Grafíkin er skuggalega raunveruleg og tekur hún sig frábærlega út í útliti persónanna, hasarsenum og umhverfinu. Tillit til smáatriða er nóg til að kalla fram holdris hjá okkur sem virðum vinnuna sem fór í þetta.
Johnny Depp fær síðan hrós fyrir líflega túlkun á kameljóninu, sem reyndar minnir á þroskaheftan bróðir Kermits frosks á köflum. En samt, þó svo að það komi þessari mynd nánast ekkert við vonast ég til þess að Depp fari að taka aðeins safaríkari og e.t.v. margbrotnari hlutverk að sér á næstunni. Mér finnst orðið alltof langt síðan hann lék almennilega síðast, og það særir mig sem gamlan aðdáanda hans að sjá hann breytast meir og meir í skemmtikraft. Aðrir leikarar koma ágætlega út þrátt fyrir að aukapersónurnar hafi flestar verið þurrar og óminnisstæðar. Hver er öðrum hiklaust ómerkilegri og það er meira að segja á mörkunum að ég hafi sýnt sjálfum Rango áhuga því stundum fór hann dálítið í taugarnar á mér. Það er samt hálfgerð sóun á fínu fólki að setja það í bragðlausa karaktersúpu þar sem maður man varla nafnið á einum einasta. Eina undantekningin væri sennilegast skröltormurinn sem Bill Nighy talsetur. Virkilega flottur karakter og eflaust sá sem mun mest reyna á hugrekki ungabarnanna.
Eins og titilpersónan þá er myndin skrítin, oft skemmtilega klikkuð, viðkunnanleg en einnig sálarlaus, öðruvísi en samt svo hefðbundin og pínu ljót í útliti en gullfallega teiknuð þrátt fyrir það. Ég vildi meiri húmor líka en á endanum segi ég að ferskleikinn nái að bæta upp fyrir skortinn á frumleikanum.
7/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei