Risastór rauður hvutti, hyrndur óvættur og Lafði Díana

Eins og svo oft áður fáum við góða blöndu af þrælspennandi nýjum myndum í bíó nú um næstu helgi sem snerta á ólíkum strengjum í hjörtum okkar. Ein er hrollvekja, önnur er hugljúf fjölskyldumynd og sú þriðja er sögulegt drama.

Hrollurinn sem okkur er boðið upp á í aðventunni heitir Antlers og gerist í afviknum bæ í Origon fylki í Bandaríkjunum og segir frá kynnum framhaldsskólakennarans Julia Meadows og bróður hennar lögreglustjórans Paul við dularfullan nemanda Juliu. Myrk leyndarmál hans leiða til hrollvekjandi samskipta við goðsagnarkenndar fornar verur.

Myndin er meðframleidd af Óskarsverðlaunaleikstjóranum Guillermo del Toro ( The Shape of Water)

Til að vera ögn nákvæmari þá lúrir ógnvættur ofaní kjallara í þessari mynd og bíður eftir því að sökkva tönnunum í bæjarbúa. Úff!!!!

Ógn og skelfing.

Myndin hefur fengið nokkuð ólíkar viðtökur en breska blaðið The Guardian smellir þremur stjörnum á myndina af fimm mögulegum.

Mannæta

Nánari söguþráður er á þá leið að Julia hefur áhyggjur af ungum nemanda sínum, Lucas (Jeremy T Thomas). Hann er þolandi eineltis og Julia tekur strax eftir því. En Lucas er að fela nokkuð sem býr ofaní kjallaranum heima hjá honum, goðsagnakennda veru sem kallast Wendigo. Þetta er hálfgerð beinagrind með viðkvæm kolsvört bein, dádýrs andlit og horn. Óvætturinn er ættaður þráðbeint úr þjóðsögunum og nærist á mannakjöti. Og nú hefur þessi mannæta tekið sér sér bólfestu í föður Lucas, sem er ópíóðafíkill í bænum.

Rauður risahundur

Í fjölskyldumyndinni Kátur stóri rauði hundurinn, eða Clifford the Big Red Dog verður ást ungrar stúlku, Emily Elizabeth, á pínulitnum hvutta að nafni Clifford, til þess að hann vex og vex og verður risastór. Clifford vekur athygli erfðatæknifyrirtækis sem hefur áhuga á að geta stækkað dýr upp í yfirstærð. Emily og frændi hennar Casey, þurfa nú að berjast gegn hinu gráðuga fyrirtæki og flýja yfir New York þvera og endilanga, þar sem ýmis ævintýri bíða….

Frekar stórt dýr.

Kvikmyndin er byggð á sígildri barnabók frá árinu 1963 eftir Horman Bridwell. Myndin var frumsýnd 10. nóvember sl. í Bandaríkjunum og fór svo einnig á streymisveituna Paramount+.

Tekjur myndarinnar í bíó nema nú samtals 46 milljónum Bandaríkjadala þegar þetta er skrifað en myndin var vinsælasta eigin framleiðsla Paramount á streymisveitunni frá upphafi á fyrstu helgi í sýningu.

Deadline segir að búið sé að ákveða að gera framhald af myndinni en ekki er búið að gefa út frumsýningardag á þeirri mynd.

Fullkominn dagur

Spencer er sannsöguleg kvikmynd um enga aðra en Díönu prinsessu af Wales og segir frá því þegar hún tók þá ákvörðun að skilja við eiginmann sinn, Karl Bretaprins, þegar hún var stödd í jólafríi með konungsfjölskyldunni á Sandringham herrasetrinu í Norfolk á Englandi.

Ef eitthvað er að marka stikluna, þá er þetta hádramatísk mynd og undir öllu hljómar lagið Perfect Day, eða Fullkominn dagur, eftir Lou Reed flutt af stúlknakór.

Blaðamaður New York Times spyr Kristen Stewart, sem leikur Díönu prinsessu, hver hennar fyrstu viðbrögð hafi verið þegar leikstjórinn Pablo Larraín bað hana um að leika prinsessuna.

Stewart segir að hann hafi sagt henni að hann væri handviss um að hún gæti leyst verkefnið vel af hendi. Henni sjálfri hafi fundist hugmyndin fífldjörf og klikkuð því henni hafi í fyrstu ekki þótt hún vera eðilegt og sjálfsagt val í hlutverkið.

Undir neti.

Blaðamaðurinn spyr Stewart svo að því hvort leikstjórinn hafi sagt afhverju hann vildi endilega fá hana í hlutverkið og Stewart svarar því til að hann hafi sagt að það hafi verið eitthvað við Díönu sem við munum aldrei vita hvað er. „Þú lætur mér líða þannig,“ sagði hann. „Ég hef séð þig leika og ég veit aldrei alveg hvað þú ert að hugsa,“ sagði hann.

Stewart heldur áfram og segir að henni líði þannig með Diönu einnig. „Þó að maður dragist sterkt að anda hennar og krafti, þá er eitthvað ómótstæðilegt við hana. Mann langar að vera vinur hennar. Mig langar í kapphlaup við hana á hallargöngunum. Mig langar að kynnast börnunum hennar.“