OASIS sýndarheimur Spielberg – Fyrsta kitla úr Ready Player One

Bandaríski leikstjórinn Steven Spielberg afhjúpaði í gær fyrstu kitlu fyrir næstu stórmynd sína, Ready Player One, sem kemur í bíó hér á Íslandi 28. mars á næsta ári, á Comic Con afþreyingarhátíðinni í San Diego í Bandaríkjunum sem nú stendur yfir.  Kvikmyndin er gerð eftir viðfrægri vísindaskáldsögu Ernest Cline.

 

Myndin fjallar um strák sem er heltekinn af menningu níunda áratugar síðustu aldar, og fer í skransöfnunarleiðangur í gegnum OASIS, sem er sýndarveruleikaheimur árið 2045.

Eins og sést í stiklunni þá er myndin sneisafull af tilvísunum í dægurmenninguna, og við sögu koma fyrirbæri eins og Járnrisinn, eða The Iron Giant, Freddy Krueger, og uppáhalds progg-rokk hljómsveit aðalhetjunnar, Rush.

Það er ekki hægt að segja að maður fái djúpa tilfinningu fyrir söguþræði myndarinnar í kitlunni, en maður fær samt góða tilfinningu fyrir tæknibrellunum.

Í nánari sögurþræði myndarinnar sjálfrar þá segir að myndin gerist í Columbus í Ohio í Bandaríkjunum, þar sem allt er á vonarvöl. En OASIS sýndarveruleikaheimurinn er fólki hvíld frá amstri dagsins og ömurleika tilverunnar.  OASIS var búið til af hinum snjalla og sérvitra James Halliday, en þegar hann fellur frá þá erfir hann veldi sitt til þess sem er fyrstur til að finna stafrænt falið páskaegg sem hann faldi í heiminum, og í hönd fer mikið kapphlaup um að finna eggið.

Aðalleikari er Tye Sheridan, en aðrir helstu leikarar eru Olivia Cooke, Ben Mendelsohn, Simon Pegg, Mark Rylance ( sem leikur Halliday ) og T.J. Miller. Cline skrifaði handritið ásamt Zak Penn.

Sjáðu kitluna hér fyrir neðan: