Nýtt í bíó – Gamlinginn 2

Sambíóin frumsýna gamanmyndina Gamlinginn 2 föstudaginn 17. febrúar nk. í Sambíóunum Álfabakka, Kringlunni, Akureyri og Keflavík, Selfossbíói, Ísafjarðarbíói og Bíóhöllinni Akranesi.

Hér er á ferðinni ný mynd um hinn kostulega gamlingja Allan Karlsson sem nú er orðinn hundrað og eins árs, langt frá því að vera af baki dottinn og stingur á ný af frá öllu saman í leit að uppskriftinni að besta gosdrykk sem fundinn hefur verið upp. Vandamálið er að þeir eru fleiri sem vilja gjarnan klófesta uppskriftina.

 

Það muna vafalaust flestir eftir myndinni Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf sem var byggð á samnefndri skáldsögu eftir sænska rithöfundinn Jonas Jonasson, en hún var frumsýnd í maí 2013 og sló í gegn rétt eins og bókin sjálf, enda bráðfyndin. Hér er komið beint framhald þeirrar myndar, gert af sama leikstjóra og gerði fyrri myndina, Felix Herngren, og það er að sjálfsögðu Robert Gustafsson sem fer á ný með hlutverk þess gamla auk þess sem fleiri gömlum kunningjum úr fyrri myndinni bregður fyrir.

Segja má að sagan hefjist þar sem þeirri fyrri lauk en Allan, sem nú er orðinn 101 árs, ákveður nú að taka annan túr um Evrópu í því skyni að finna löngu glataða uppskrift af gosdrykk sem er svo góður að allir sem hann smakka vilja engan annan godrykk eftir það. Á ferðalaginu kemur sá gamli sem fyrr víða við og inn í söguna blandast bæði þekktir og óþekktir erindrekar ýmissa stjórnvalda sem eru líka á höttunum eftir uppskriftinni góðu …

Aðalhlutverk: Robert Gustafsson, Ivar Wiklander, Svetlana Rodina, Shima Niavarani, David Wiberg, Ralph Carlsson og Joseph Long

Leikstjórn: Felix Herngren

Aldurstakmark: Öllum leyfð

Nokkrir fróðleiksmolar til gamans: 

-Jonas Jonasson skrifaði þessa framhaldssögu beint fyrir kvikmyndun og einnig handritið í samvinnnu við þá Felix Herngren og Hans Ingemansson.

-Sá sem leikur Allan Karlson, Robert Gustafsson er í raun 53 ára og má því segja að hann eldist tvöfalt með aðstoð förðunarfólksins.