Rómantísk og skemmtileg

Í rómantísku gamanmyndinni Bros sem kemur í bíó núna á föstudaginn kynnumst við Bobby Leiter sem er að gera enn einn hlaðvarpsþáttinn um New York borg. Hann er líka með útvarpsþátt og ræðir við hlustendur um skrif sín um hinsegin-sögu og fyrirmyndir hinsegin fólks. Hann segist vera hæstánægður með að vera einhleypur og hafa ekki enn fundið ástina, en hann notar stefnumótaforritið Grindr til að hitta nýja menn.

Aaron og Bobby á góðri stundu.

Verðlaunaður

Bobby mætir á verðlaunahátíð fyrir hinsegin samfélagið og hlýtur verðlaun fyrir „Best Cis Male Gay Man“. Hann tilkynnir þar að hann hafi tekið að sér að verða forstöðumaður nýs þjóðarsafns fyrir hinsegin-sögu á Manhattan, fyrsta safns af því tagi í heiminum. Hann slæst í för með Henry vini sínum á næturklúbb í borginni þar sem verið er að kynna nýtt stefnumóta-app fyrir hinsegin fólk og kemur auga á Aaron Shepard, sem Henry lýsir sem „hot“ en leiðinlegum. Aaron og Bobby daðra og deila kossi en Aaron virðist ekki spenntur fyrir Bobby.

Úti að borða.

Hitta Debru Messing

Nokkrum dögum síðar fara þeir að verja meiri tíma saman en sambandið er brösótt. Þegar Bobby hittir Debra Messing, sem vill styrkja safnið með peningagjöf, kvartar hann undan erfiðu sambandi sínu við Aaron. Messing verður reið, fárast yfir því að margir hinsegin karlmenn úthelli sorgum sínum yfir hana vegna hlutverksins sem hún lék í Will and Grace og ákveður að styrkja ekki safnið.

Sambandið við Aaron er áfram stormasamt og þeir Bobby eru sundur og saman í einhvern tíma. Þeir sem vilja vita meira verða bara að koma í bíó!

Fróðleikur

Myndin er frá þeim sömu og framleiddu Bridesmaids og Trainwreck og leikstjórinn er sá sami og gerði Bad Neighbours og Forgetting Sarah Marshall.

Mikið grín er gert að Hallmark-kvikmyndum í Bros en Luke Macfarlane hefur leikið í 14 slíkum.

Þetta er í fyrsta sinn sem Billy Eichner er í aðalhlutverki í Hollywood-mynd.

Næstum allir leikarar og annað starfslið myndarinnar eru hinsegin fólk.

Debra Messing leikur hér í fyrsta sinn skáldaða útgáfu af sjálfri sér á hvíta tjaldinu.

Aðalhlutverk: Billy Eichner, Luke Macfarlane, Ts Madison, Monica Raymund, Guillermo Díaz, Guy Branum og Amanda Bearse.

Handrit: Nicholas Stoller og Billy Eichner.

Leikstjóri: Nicholas Stoller.