Handritshöfundur Rise of Skywalker opnar sig: „Aldrei þurft að endurskrifa bíómynd svona oft“

Eins og mörgum Star Wars-aðdáendum er eflaust kunnugt um voru viðtökurnar við nýjustu og níundu mynd hinnar svonefndu Skywalker-sögu, The Rise of Skywalker, vægast sagt blendnar. 

Ef marka má gagnrýnendavefinn RottenTomatoes hefur engin leikin Star Wars kvikmynd hlotið slakari dóma og hafa margir hverjir verið duglegir að deila á gæði myndarinnar. Flestir áhorfendur hafa þó náð að vera sammála um að myndin hafi verið fullhröð, pökkuð og nægur tími hafi ekki verið gefinn í vissar útskýringar eða persónur.

Sjá einnig: Aðdáendur æfir yfir nýjum upplýsingum um Palpatine

Nú hefur Chris Terrio, annar handritshöfundur myndarinnar ásamt J.J. Abrams, tjáð sig um álagsferlið sem því fylgdi að tjasla sögunni saman fyrir níunda kaflann. Terrio lét ýmis hreinskilin orð falla í bókinni The Art of Star Wars: The Rise of Skywalker, en sú bók var gefin út þann 31. mars og segir ýmsar sögur af því sem fram fór á bakvið tjöldin.

Það sem hefur vakið mestu athygli aðdáenda Stjörnustríðs er hversu ljóst er að framvinda myndarinnar hafi átt að spilast öðruvísi út. Þetta sést einnig á svonefnda „concept art’i“ fyrir myndina, sem nóg er að finna af í umræddri bók. 

Terrio hlaut Óskarsverðlaun árið 2013 fyrir besta handrit byggt á áður útgefnu efni, en hann á einnig að baki titla eins og Batman v Superman og Justice League. Hin síðarnefnda er sérstaklega þekkt fyrir sögur af strembnu framleiðsluferli og ýmsum mismunandi útgáfum sem þurfti að glíma við. Terrio segist þó hafa aldrei upplifað ferli í líkingu við The Rise of Skywalker.

„Áður hef ég aldrei þurft að endurskrifa bíómynd svona oft,“ segir Terrio. „Þetta kom í bylgjum. Handritinu var breytt á hverjum morgni. Við [J.J. Abrams] héldum okkar dampi en hugsuðum samt alltaf í laumi að þetta væri ekki nógu gott. Manni finnst aldrei neitt vera nógu gott.

Chris Terrio og J.J. Abrams við tökur á STAR WARS: THE RISE OF SKYWALKER

Heppilega vorum við með svo öflugt framleiðsluteymi að við náðum að aðlagast. Við breyttum mörgu á síðustu stundu og prófuðum okkur áfram. Sumt virkar ekki, annað er of samþjappað, ýmist of einfaldað og annað of handahófskennt. Við vorum stöðugt að reyna að finna rétta jafnvægið á þessu öllu.“

Sjá einnig: Lengri útgáfa af The Rise of Skywalker ekki í spilunum: „Ég get ekki ímyndað mér myndina betri“

Forskot á sæluna

Fyrir nokkrum vikum var The Rise of Skywalker gefin út á stafrænt form, en Disney hlóð upp fyrstu tíu mínútunum úr heimildarmyndinni The Skywalker Legacy, sem tilheyrir aukaefni Blu-Ray útgáfunnar. Þar er farið ítarlega á bak við tjöld níundu og nýjustu myndarinnar í myndabálknum og einnig fjallað um gerð gamla þríleiksins, með áður óséðu myndefni frá tökum hans.

Heimildarmyndin er rúmlega tveir klukkutímar í heildina og ýmsar fróðlegar upplýsingar er að finna á þessum tíu mínútum.

Aðdáendur Stjörnustríðs og með því eru hvattir til að gæða sér á þessu innliti í arfleið heildarseríunnar og ferli stórmyndar sem gífurleg pressa hvíldi á bak við.