Hver er staðan á Eurovision myndinni frá Netflix?

Íslendingar bíða eflaust margir hverjir spenntir eftir Eurovision-kvikmyndinni með gamanleikaranum Will Ferrell í aðalhlutverki. Það eru risarnir hjá Netflix sem framleiða Eurovision-myndina og er þetta fyrsta samstarfsverkefni grínarans við streymisveituna. Tökur fóru fram í fyrrasumar í London, Edinborg og við Húsavík. 

Það kemur því fáum á óvart að fjöldi þekktra, íslenskra leikara kemur fram í myndinni, enda fjallar gamanmyndin í grunninn um Íslendinga sem eiga sér þann heita draum að taka þátt í söngvakeppninni stóru – og sigra hana!

Ekki liggur fyrir hvenær myndin verður frumsýnd en hún er framleidd af streymisveitunni Netflix.  Væntanlega hefur það sett strik í reikninginn að Eurovision-keppninni, sem fara átti fram í Hollandi í ár, hefur verið aflýst.

Búast má þó við fyrstu stiklunni fyrir myndina á komandi vikum.

En hvað vitum við meira um þessa bíómynd sem á eftir að setja Ísland í sviðsljósið sem aldrei fyrr í Hollywood?

Fegurð og fagfólk

Til að gefa lesendum smá heildarmynd á söguþráð kvikmyndarinnar Eurovision þá ku hún fjalla um eyðimerkurgöngu Íslands í keppninni sem á að hafa staðið í rúma fjóra áratugi. Ferrell fer með hlutverk Íslendingsins Lars Erickssonar frá Húsavík og segir myndin frá þátttöku hans og Sigrit, eiginkonu hans (sem leikin er af Rachel McAdams), í söngvakeppninni stórfrægu, sem er stærsti draumur þeirra beggja. Heimildir herma að þau Lars og Sigrid séu einnig systkini.

Systkinaástin

Leikstjórinn David Dobkin situr við stjórvölinn en hann á meðal annars að baki kvikmyndirnar Wedding Crashers, Fred Klaus, Shanghai Knights og The Change-Up. Eins og sjá má hefur hann mikið sérhæft sig í gamanmyndum en Ferrell skrifar handritið að myndinni ásamt Andrew Steele. Þeir kumpánar hafa reglulega unnið saman síðan á dögum Ferrell hjá grínþættinum Saturday Night Live og skrifuðu saman myndina Casa de mi Padre. Adam McKay, leikstjóri Anchorman-myndanna, Step Brothers og The Big Short, er einn af helstu framleiðendum myndarinnar. 

Með önnur hlutverk í Eurovision fara Dan Stevens (Downton Abbey), Natasia Demetriou (What We Do in the Shadows), Elina Alminas (Ex Machina) og Melissanthi Mahut. Söngkonan Demi Lovato fer einnig með hlutverk Íslendings í myndinni og fyrrverandi Bond-leikarinn Pierce Brosnan leikur föður Lars, sem í sögunni er sagður vera myndarlegasti karlmaður landsins.

Íslensku leikararnir í Eurovision eru eftirfarandi:

Arnar Jónsson, Arnmundur Ernst Björnsson, Álfrún Rose, Björn Hlynur Haraldsson, Björn Stefánsson, Bríet Kristjánsdóttir, Elín Pétursdóttir, Guðmundur Þorvaldsson, Hannes Óli Ágústsson, Hlynur Þorsteinsson, Jói Jóhannsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Ólafur Darri Ólafsson, Smári Gunn o.fl.

Leikarinn Ari Freyr Ísfeld Óskarsson var fenginn til að kenna stórstjörnunum Ferrell og McAdams íslenskan framburð. Hermt er að R-in hafi reynst þeim erfið og sömuleiðis Þ-hljóðin í íslenskunni.

Fékk 135 milljónir í endurgreiðslu frá ríkinu

Tökulið Eurovision-myndarinnar var einnig statt ásamt leikurum myndarinnar í Tel Aviv í Ísrael í fyrra. Það kom hins vegar mörgum í opna skjöldu þegar Will birtist á keppninni í Lissabon árið áður.

Það voru því enn óvæntari fréttir þegar Will sagðist vera mikill aðdáandi keppninnar, en hann hefur horft á hana árlega frá árinu 1999, eftir að fjölskylda eiginkonu hans, hinnar sænsku Vivecu Paulin, horfði á keppnina með honum.

Will og Viveca gengu síðan í það heilaga árið 2000, en Will hefur áður mætt á Eurovision, til að mynda á úrslitakvöldið í Kaupmannahöfn árið 2014.

Eurovision myndin fékk 135 milljónir í endurgreiðslu frá ríkinu. Það þýðir að kostnaðurinn við tökur myndarinnar hér á landi nam rúmum hálfum milljarði. Þetta kom fram í uppfærðum tölum á vef Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Endurgreiðsluhlutfall vegna sjónvarps-og kvikmyndagerðar hér á landi er 25 prósent.