Hörku árangur hjá Hobbs og Shaw

Fast & Furious afsprengið ( e. spinoff ) með þeim Dwayne Johnson og Jason Statham í aðalhlutverkum, Fast and Furious Presents: Hobbs and Shaw, er langvinsælasta kvikmyndin í Bandaríkjunum nú um helgina, en tekjur hennar eftir sýningar á föstudaginn námu 23,7 milljónum Bandaríkjadala. Áætlað er að yfir helgina alla muni tekjurnar ná upp í 60 milljónir dala, sem ætti að duga til skjóta toppmyndunum The Lion King og Once Upon a Time in Hollywood ref fyrir rass.

Tveir ansi harðir.

Myndinni gengur enn betur utan Bandaríkjanna, enda virðist heimsbyggðin hreint ekki geta fengið nóg af þessari langlífu kvikmyndaseríu, sem er orðin ein sú vinsælasta í sögunni. Útlit er fyrir að tekjur af myndinni vegna sýninga utan Bandaríkjanna muni nema um 120 milljónum dala, og samtals verða tekjurnar því um 180 milljónir dala. Þess má geta að myndin verður ekki frumsýnd fyrr en síðar í mánuðinum í Suður Kóreu og Kína, en hefur verið frumsýnd víðast hvar annars staðar.

Áð’ur en myndin kom í bíó hljóðuðu tekjuspár upp á 60-65 milljónir dala fyrir helgina alla í Bandaríkjunum.

Ef svo fer sem horfir, og kvikmyndin nær að hala inn 60 milljónum dala, þá er það besti árangur á ferli Johnson, fyrir utan aðal – Fast & Furious myndirnar, þegar ekki er leiðrétt fyrir verðbólgu. Það sama á við um Statham. Þá er þetta tekjuhæsta frumsýningarmynd sumarsins ef Disney myndir og ofurhetjumyndir eru ekki taldar með, en myndin fer upp fyrir John Wick: Chapter 3 – Parabellum, en tekjur hennar námu 56,8 milljónum dala.

Leikstjóri Hobbs & Show er Deadpool 2 leikstjórinn David Leitch, og helstu stjörnur eru Idris Elba, Helen Mirren og Vanessa Kirby, auk gestaleikara eins og Ryan Reynolds og Kevin Hart.