Prinsinn snýr aftur til Bandaríkjanna

Framleiðslufyrirtækið Paramount Pictures hefur ráðið Craig Brewer til að leikstýra framhaldi hinnar bráðskemmtilegu Eddie Murphy kvikmyndar, Coming to America, Coming to America 2. Murphy gaf út tilkynningu nú fyrir helgi þar sem hann sagði að framhaldið, sem margir hafa vonast lengi eftir að yrði að veruleika, væri nú komið á rekspöl, 31 ári eftir að upprunalega myndin var frumsýnd.

Murphy mun á ný fara með hlutverk Akeem, hins ofdekraða en glaðlega prins, sem fer til Bandaríkjanna með þá von í brjósti að finna konu til að giftast. Prinsinn vill finna ástina á sínum eigin forsendum og án þess að viðkomandi stúlka viti hver hann í raun og veru er, í von um að hún verði ástfangin af honum sjálfum sem persónu en ekki bara af því að hann er prins.

Talið er að einnig muni snúa aftur til leiks, Arsenio Hall, Shari Headley, John Amos og James Earl Jones.

Ákvörðunin um að fá Craig Brewer í starfið, er tekin í kjölfar þess að hann leikstýrði Murphy í Netflix myndinni Dolemite Is My Name. Murphy var að sögn spenntur að vinna aftur með Brewer, og fannst sem hann yrði besti kandidatinn til að leikstýra framhaldinu.

„Eftir margra ára eftirvæntingu, þá er ég afar spenntur að Coming to America 2 sé nú að verða að veruleika. Við höfum safnað saman góðum hópi undir leiðsögn Craig Brewer, sem vann frábært starf við Dolemite, og ég hlakka til að færa allar þessar sígildu og ástsælu persónur aftur upp á hvíta tjaldið.“

Fyrrum Black-ish framleiðandinn Kenya Barris situr nú við handritsskrif, og endurritar handrit upprunalegu handritshöfundanna, þeirra Barry Blaustein og David Sheffield.

Ekkert hefur verið látið upp enn sem komið er um það hvenær tökur eigi að hefjast, en útlit er fyrir að þær gætu hafist á þessu ári.