Allt í klessu hjá Apatow

Comedy Central Roast of Donald Trump - ArrivalsNæsta verkefni leikstjórans Judd Apatow, sem síðast gerði This Is 40, verður kvikmyndin Train Wreck, eða Allt í klessu, í lauslegri íslenskri þýðingu, með grínistanum Amy Schumer í aðalhlutverki.

Samkvæmt The Hollywood Reporter vefmiðlinum mun Schumer leika rugludall sem reynir að breyta lífi sínu.

Enn á eftir að ráða í hlutverk kærasta hennar, besta vinar og foreldra. Apatow mun framleiða myndina ásamt öðrum.

Schumer skrifar handritið sjálf, en hún er best þekkt fyrir vinsæla gamanþáttaseríu sína á Comedy Central sjónvarpsstöðinni, Inside Amy Schumer. Hún hefur einnig leikið í myndunum Sleepwalk with Me, Seeking a Friend for the End of the World og Price Check.