Karate Kid serían er ein sú ástsælasta í Hollywood en upphaflega myndin frá 1984, sem Robert Mark Kamen skrifaði handritið að, er fyrir löngu orðin sígild.
Seríur renna yfirleitt á endanum sitt skeið en þegar endurgerðin The Karate Kid var óvænt frumsýnd árið 2010 með Jaden Smith og Jackie Chan í aðalhlutverkum komst serían aftur í sviðsljósið.

Átta árum síðar voru sjónvarpsþættirnir Cobra Kai frumsýndir og blésu nýju lífi í Karate Kid heiminn, en þættirnir luku nýlega göngu sinni.
En sagan er ekki búin. Karate Kid: Legends kemur í bíó á morgun í leikstjórn Jonathan Entwistle. Hún fléttar m.a. upprunalegu seríuna saman við endurgerðina frá 2010.
Aðdragandi bardagans
Collider kvikmyndasíðan bað Entwistle að gefa sér dæmi um eitthvað sem myndi ekki virka í sjónvarpi en kæmi vel út á hvíta tjaldinu, og fólk gæti tekið eftir í nýju myndinni.
„Já ég held að það sé aðdragandinn að lokabardaganum. Það er kafli í kvikmyndinni þar sem við leyfum okkur að færa okkur yfir í enda myndarinar, og þá er ekkert talað í tólf mínútur. Það er mjög áhugaverður kafli.“
Þú hefur gott auga fyrir leikaravali.
„Ég trúi á að það sé ekkert til sem heitir slæmur leikur, heldur bara slæmt leikaraval. Réttur leikari fyrir rétt hlutverk, er betri leið til að útskýra þetta. En ég, sem leikstjóri, nýt ég þess að horfa á leikara vinna sína vinnu.
Þegar ég sá áheyrnarprufuna frá Ben Wang, sem leikur Karate Kid, þá hugsaði ég, „vá, hann er góður!“ Og það sama með Sadie Stanley sem leikur Mia. Ég sá hennar áheyrnarprufu og sagði „Já, hún er sú eina rétta.“ En almennt séð veit ég ekki hver galdurinn er við að velja leikara, ég fæ bara einhverja tilfinningu.“