Örfáir sáu nýjustu kvikmynd Kevin Spacey

Óhætt er að fullyrða að ferill kvikmyndaleikarans Kevin Spacey hafi farið lóðbeint niður á við eftir að drengur undir lögaldri ásakaði hann um kynferðislega áreitni.

Nýjasta mynd Spacey, sem frumsýnd var nú um helgina í Bandaríkjunum, er gott dæmi um núverandi stöðu leikarans í skemmtanabransanum, en tekjur kvikmyndarinnar Billionaire Boys Club voru samtals 126 bandaríkjadalir á föstudaginn síðasta, eða tæpar 14 þúsund krónur.

Myndin, sem er með þeim Ansel Elgort og Taron Egerton í öðrum hlutverkum, kom út á VOD í síðasta mánuði, og var svo frumsýnd eins og fyrr sagði í átta bíósölum nú um helgina, samkvæmt The Hollywood Reporter.  Þess ber að geta að sú staðreynd að myndin er ekki frumsýnd í Los Angeles og New York, heldur bara í borgum víða um Bandaríkin, eins og Phoenix, Detroit, New Orleans, Miami og Hartford, skýrir þessar ótrúlegu aðsóknartölur að hluta.

Eftir sýningar helgarinnar er áætlað að myndin nái aðeins að skrapa saman um 425 dölum eða um 46 þúsund krónum yfir helgina alla.  Sé deilt í þessar tölur með meðalmiðaverði í Bandaríkjunum, þá má ætla að um sex manns hafi séð kvikmyndina í hverju kvikmyndahúsanna sem hún var sýnd í.

Til samanburðar var vinsælasta kvikmynd helgarinnar, Crazy Rich Asians, með tekjur upp á 25,2 milljónir dala yfir helgina alla, en hún var sýnd í 3.348 bíósölum.

Það var Star Trek: Discovery leikarinn Anthony Rapp sem kom fyrst fram og sakaði Spacey um kynferðislega áreitni sem átti sér stað þegar hann var 14 ára og Spacey 26 ára. Ásakanirnar leiddu til rannsókna í Los Angeles og í London, á framferði leikarans. Síðan hefur Spacey, sem nú er 59 ára gamall, haldið sig til hlés.

Hann var rekinn úr sjöttu seríu Netflix þáttanna vinsælu House of Cards, og Christopher Plummer tók hans stað í kvikmyndinni All the Money in the World.  Billionaire Boys Club er því fyrsta myndin sem kemur fyrir sjónir almennings eftir að ásakanirnar komu fyrst fram.

Samkvæmt Entertainment Weekly þá gaf framleiðslufyrirtæki kvikmyndarinnar út yfirlýsingu um þátttöku Spacey í kvikmyndinni, og bað fólk um að hafa í huga að kvikmyndin var gerð áður en ásakanirnar komu fram.

Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum og fjallar um samnefndar klúbb í suður Kaliforníu á níunda áratug síðustu aldar, þegar gróðaverkefni fór ekki eins og til stóð. Spacey leikur fjárfestinn og svikahrappinn Rob Levin í myndinni.