Ný teiknimynd á toppnum – Dóra slær met í USA

petsNý teiknimynd, Secret Life of Pets, brunaði beint á topp bandaríska bíóaðsóknarlistans nú um helgina, en þar hefur Leitin að Dóru setið í þrjár vikur samfleytt.

Myndin verður frumsýnd á Íslandi 5. ágúst nk.

Áætlaðar tekjur The Secret Life of Pets eru 103,3 milljónir Bandaríkjadala, en tekjur Leitarinnar að Dóru þessa helgina eru áætlaðar 20,9 milljónir dala í öðru sæti listans.

Þesssi niðurstaða þýðir engu að síður að Leitin að Dóru er orðin aðsóknarmesta teiknimynd Disney allra tíma í Bandaríkjunum með 423 milljónir dala í aðgangseyri, en myndin fer þar með fram yfir Lion King, sem þénaði 422,78 milljónir dala í bíó í Bandaríkjunum og Toy Story 3 með 415 milljónir dala.

Þriðja vinsælasta myndin í Bandaríkjunum nú um helgina samkvæmt þessum bráðabirgðatölum, er ævintýramyndin The Legend of Tarzan með 20,7 milljónir dala í aðgangseyri, á sinni annari viku á lista. Fjórða sætið skipar svo Mike and Dave Need Wedding Dates, sem er ný á lista, en áætlaðar tekjur hennar yfir helgina alla eru 16,7 milljónir dala.

Fimmta sætið skipar hrollvekjan The Purge: Election Year, sem þénar að öllum líkindum 12 milljónir dala yfir helgina alla, en þetta er önnur vika myndarinnar í sýningum.