Söngurinn sigrar brjálæðið

Söngvamyndin Pitch Perfect 2, framhald hinnar geysivinsælu Pitch Perfect, gengur glimrandi vel í bíóhúsum í Bandaríkjunum þessa frumsýningarhelgi sína, en búist er við að tekjur myndarinnar yfir helgina alla muni nema um 64 milljónum Bandaríkjadala, sem þýðir að hún skilur spennumyndina Mad Max: Fury Road eftir í rykinu, eða 20 milljónum dala neðar á tekjulistanum – í öðru sætinu með 41 milljón dala í tekjur, sem þykir mjög gott einnig.

pitch kendrick

Pitch Perfect 2 hrifsar þar með toppsæti listans af ofurhetjugenginu í Avengers: Age of Ultron, sem hefur setið þar sem fastast síðastliðnar tvær helgar. Myndin er þó enn mjög vinsæl og mun líklega raka til sín 37 milljónum dala þessa þriðju sýningarhelgi sína.

Mad Max: Fury Road eftir George Miller, hefur fengið firnagóða dóma, einkum fyrir heillandi og vel útfærð spennuatriðin, sem gerast í ævintýralegum myndheimi Millers. Helstu hlutverk leika Tom Hardy og Charlize Theron.

Anna Kendrick og Rebel Wilson leika aðalhlutverkin í Pitch Perfect 2, en fyrri myndin þénaði 115 milljónir dala um allan heim, og var óvæntur risasmellur. Elizabeth Banks, sem leikur í báðum myndunum, leikstýrir þessari nýju mynd líka.

Avengers: Age of Ultron, fór yfir einn milljarð dala í tekjur á heimsvísu sl. föstudag.